Landsvirkjun

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 15:16:54 (3434)

1997-02-12 15:16:54# 121. lþ. 69.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[15:16]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Ég tel að forseti hefði átt að grípa inn í þegar í upphafi nafnakallsins þegar þingmenn fóru í ræðustól til að gera grein fyrir atkvæði sínu en gerðu grein fyrir allt öðru. Þeir fóru ýmist að flytja þakkir til einstakra þingnefnda eða hallmæla einstökum stjórnmálaflokkum. Ég tel að það sé algerlega fráleitt að forseti leyfi það og uni við það að þingmenn hefji umræður um kosti og galla stjórnmálaflokka eða einstakra þingmanna við þau skilyrði er þeir eiga að gera grein fyrir afstöðu sinni til máls. Margir þingmenn úr fleiri en einum flokki féllu að mínu mati í þá gryfju að koma í þennan ræðustól í öðrum tilgangi en ætlast er til.

Ég vil segja vegna þess að hv. þm. Hjálmar Árnason hóf þennan leik að mér var sérstaklega misboðið að hann skyldi gera það að sérstöku efni í sinni atkvæðaskýringu að það væru fáir sem hefðu tiltekna skoðun. Ég hef aldrei talið það vera löst á mönnum þó að þeir hefðu skoðun sem fáir aðhylltust og þingmenn eiga ekki að gera sér leik að því að gera lítið úr mönnum eða skoðunum manna á þeim grundvelli að það séu fáir sem aðhyllast þær.

Ég vil, virðulegi forseti, segja að mér er misboðið og ég tel að forseti hefði átt að grípa inn í þessar atkvæðaskýringar þegar í upphafi og afstýra þeirri hneisu sem hér hefur orðið.