Staða þjóðkirkjunnar

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 16:00:56 (3437)

1997-02-12 16:00:56# 121. lþ. 69.2 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[16:00]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Enn fagna ég og undrast satt að segja hæfileika hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að geta í beinu framhaldi af karpinu um Landsvirkjun tekist að skipta yfir á aðra strauma og það svo að hann fyllti út ræðutímann og munaði ekki um. Það er líka gott til að hugsa hvað hann umgengst af mikilli virðingu skoðanir annarra og vill að þannig sé um fjallað. Vissulega er langur vegur frá kirkjuþinginu í Níkeu, mig minnir 325, til Alþingis Íslendinga 1997, en við munum vafalaust ekki fjalla hér um kenningar kristninnar heldur þá umgjörð sem þjóðkirkjunni er búin. Ég mun í seinni ræðu minni við 1. umr. ræða um eignamál kirkjunnar og þann samning sem verið er að gera.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson benti á að í annarri línu frv., þ.e. í kaflanum Heiti og undirstaða, 1. gr., stendur að ríkisvaldinu beri að styðja og styrkja þjóðkirkjuna. Samkvæmt stjórnarskránni er það að styðja og vernda. Þarna hafa orðið pennaglöp og ég mun leggja til breytingu til samræmis við stjórnarskrána þannig að þarna standi að styðja og vernda þjóðkirkjuna.

Varðandi skírn í nafni heilagrar þrenningar sem hv. þm. spyr um vil ég segja það að á Íslandi eru börn eru skírð í nafni guðs föður, sonar og heilags anda, í þjóðkirkjuna, og skírnin er um leið innganga í kirkju Krists. Það eru engin áhöld um að þrenningarlærdómurinn er undirstaða í hinni íslensku þjóðkirkju. En með ábendingar hv. þm. mun allshn. vafalaust fara vel og skoða rækilega og gefast mörg tilefni og tækifæri til umræðna.