Afturköllun breytingartillagna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 10:34:46 (3443)

1997-02-13 10:34:46# 121. lþ. 70.92 fundur 188#B afturköllun breytingartillagna#, Forseti GÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[10:34]

Forseti (Guðni Ágústsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti taka eftirfarandi fram: Út af orðum sem féllu hér í gær við upphaf atkvæðagreiðslu um frv. um Landsvirkjun um afturköllun breytingartillagna þykir forseta ástæða til að leiðrétta misskilning sem þar kom fram og skýra stuttlega reglurnar sem um þetta gilda.

Meginregluna er að finna í 60. gr. þingskapa en þar segir að breytingartillögu megi afturkalla á hverju stigi umræðu sem er en heimilt er hverjum þingmanni að taka hana jafnskjótt upp aftur á sama fundi. Það er að vísu afar sjaldgæft að slíkt sé gert í seinni tíð. Frá þessari meginreglu eru undantekningar, bæði skráðar og óskráðar, sú helst sem frá er greint í 2. mgr. 60. gr. að flm. má kalla brtt. aftur til 3. umr. og kemur hún þá fyrst til afgreiðslu við þá umræðu. Fyrir 3. umr. er hins vegar hvorki þörf á að endurflytja né endurprenta tillöguna.

Annað gildir hins vegar samkvæmt gamalli þingvenju við fjárlagaafgreiðslu. Breytingartillögu við 2. umr. fjárlaga sem hefur verið kölluð aftur verður að endurflytja við 3. umr. ef þingmaður vill láta á hana reyna þá.

Vera má að þetta atriði hafi valdið misskilningi við atkvæðagreiðslu við 2. umr. á þriðjudag um Landsvirkjun. Þá kallaði 1. minni hluti iðnn. aftur brtt. sem hann flutti sameiginlega með 2. minni hluta, eða féll af sinni hálfu frá tillögunni, og stóð 2. minni hluti þannig eftir það einn að tillögunni. Hann átti þá rétt til að kalla tillöguna aftur til 3. umr. sem hann og gerði og þess vegna var skjalið með brtt. sett á dagskrá með málinu við 3. umr.

Þessar útskýringar vildi forseti að fram kæmu hér af forsetastóli vegna þess misskilnings sem virtist gæta um afturköllun breytingartillagna.