Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 10:37:38 (3444)

1997-02-13 10:37:38# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[10:37]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég fagna því að frv. til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er lagt fram til umfjöllunar á Alþingi. Það þarf ekki að orðlengja það að hér á landi hafa lengi verið mjög náin tengsl milli ríkis og kirkju. Íslenska kirkjan hefur samt sem áður haft sjálfstæði í innri málum sínum um guðsþjónustuna, helgisiði, skírn, fermingu og veitingu sakramentanna. Ytri rammi kirkjustarfsins er hins vegar ákveðinn í lögum.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar ýmsar breytingar á lögum til að auka sjálfræði kirkjunnar og henni fengnir sérstakir tekjustofnar til ýmissa þátta í starfsemi sinni. Þessar breytingar og aukin ábyrgð kirkjunnar manna sem þeim fylgja hafa tvímælalaust orðið til þess að efla starfsemi þjóðkirkjunnar. Ég tek heils hugar undir höfuðforsendur frv. sem koma fram í grg. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Höfuðforsendur lagafrumvarps þessa eru sem hér segir:

a. Veruleg aukning á innra starfi kirkjunnar og örar breytingar á því kalla á nauðsynlegar breytingar á kirkjulöggjöfinni og jafnframt á aukna og styrkta stjórnsýslu á kirkjulegum vettvangi.

b. Búsetu- og þjóðfélagsbreytingar, ásamt breyttum og bættum samgöngum, kalla á aukinn sveigjanleika í starfi kirkjunnar.

c. Umræða á pólitískum vettvangi um að endurskoða þurfi samband ríkis og kirkju kallar á svar stjórnvalda og kirkjunnar sjálfrar um heppilega og eðlilega framtíðarskipan um stöðu hennar.``

Prestaköll hér á landi eru afar misjöfn bæði hvað snertir landfræðilega stærð og legu og einnig fjölda sóknarbarna. Í fámennasta prestakalli landsins eru t.d. innan við 200 manns og litlu fjölmennari eru mörg prestaköll og ég nefni þá sem dæmi á Suðurlandi og Skagafirði og reyndar víðar. Á sama tíma losa fjölmennustu prestaköllin 11.000 manns, t.d. Grafarvogsprestakall í Reykjavík. Þar eru starfandi tveir prestar. Sums staðar er brýn þörf á að fá fleiri presta til starfa en annars staðar mætti e.t.v. sameina prestaköll og færa þá störf þangað sem þörfin er brýnust.

Í 49. gr. frv. er gert ráð fyrir því að kirkjuþing setji starfsreglur samkvæmt 60. gr. um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Í umræddum starfsreglum skulu m.a. vera reglur varðandi skiptingu kirkjusóknar og sameiningu sókna og um sóknarmörk. Samkvæmt greininni er það lagt í hendur kirkjunnar manna að skipa þessum málum sem þeir telja best þjóna hagsmunum safnaðanna í landinu. Þetta tel ég vera mjög eðlilega og góða skipan og engum treystandi betur en þeim sem málin brenna á að haga þeim á sem skynsamlegastan hátt. Ég tel raunar að 49. gr. sé ein af mikilvægustu greinum þessa frv.

Í 61. gr. frv. er síðan fest niður með mjög skýrum hætti hve margir starfsmenn kirkjunar þiggi laun úr ríkissjóði. Það er ljóst af þeirri grein að ekki verða greidd laun til fleiri en 138 presta nema skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar fjölgi og er þá miðað við að einn prestur komi til starfa fyrir hver 5.000 manns. Í framtíðinni mun því reyna á að ákvæði 49. gr. verði virk og auðveld í framkvæmd svo kirkjan geti nýtt sem best krafta starfsmanna sinna í samræmi við þarfir safnaðanna á hverjum tíma.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ákvæði 39. gr. um æviráðningu presta geti e.t.v. gert örðugt að ná fram ákvæðum 49. gr. og þar með tafið fyrir nauðsynlegum sveigjanleika sem kirkjan verður að hafa til að færa til starfsmenn sína svo sem þörf kallar á. Þess vegna vil ég spyrja kirkjumrh. um álit hans á því.