Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:06:18 (3452)

1997-02-13 11:06:18# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:06]

Mörður Árnason:

Virðulegur forseti. Ég verð byrja á því að biðjast forláts á því að vera koma hér inn í umræðu, nýkominn á þingið, en ég tel ástæðu til þess ekki síst vegna þess að ég tek þátt í störfum þeirrar nefndar sem um þetta mun fjalla og vegna þess að mér sýnist af andsvörum hér áðan, frá a.m.k. 3. og 14. þm. Reykv., að þeir hafi ekki fengið skýr svör í fyrri umræðu við þeim málum sem á þeim brunnu, kannski einkum ekki 14. þm. Það sem mér er óljóst í þessu er einmitt það hvert er gildi þess samkomulags sem frv. byggir á og tekur við af því fyrirkomulagi sem á var sett 1907 og var bráðabirgðafyrirkomulag á sinn hátt þó lengi hafi staðið. Það er ljóst að þetta frv. er hér borið fram við þann bakgrunn að undanfarin missiri og ár hafa verið nokkrar umræður um stöðu þjóðkirkjunnar og ekki allir á einu máli um það mál. Það ætla ég ekki að gera að umræðuefni en bendi þó á að á þær umræður er beinlínis minnst í athugasemdum við frv. þar sem segir í II. tölulið:

,,... allnokkrar umræður [hafa farið fram] um réttarstöðu íslensku þjóðkirkjunnar, einkum þó um afstöðu hennar til ríkisvaldsins (löggjafarvalds og framkvæmdarvalds). Er þar bæði átt við umræður á kirkjulegum vettvangi, einkum á kirkjuþingi, en aðrir aðilar hafa einnig látið til sín heyra þótt eigi fari sérlega hátt, [að mati semjenda] m.a. í þá veru að slíta beri öll tengsl milli ríkis og kirkju. Eigi verður þó talið [segja semjendur] að nú um stundir eigi svo róttækar hugmyndir fylgi að fagna meðal alls þorra Íslendinga og miðast efni þessa frumvarps m.a. við þá ætlan nefndarinnar.``

Þess vegna er auðvitað ekki fráleitt að halda að jafnvel þótt semjendur hafi rétt fyrir sér, að allur þorri Íslendinga sé ekki á þeirri skoðun að rjúfa beri tengsl ríkis og kirkju, eins og ég hygg nú kannski að sé rétt, að umræðan um það muni halda áfram. Og maður spyr því: Erum við að binda hendur okkar og eftirkomenda okkar og sporgöngumanna í framtíðinni með því að samþykkja þetta frv. á grundvelli þess samnings sem gerður hefur verið? Ég vil þess vegna spyrja líkt og hv. 19. þm. Reykv.: Bindur þetta hendur okkar? Bindur þetta hendur annars vegar kirkjunnar sjálfrar sem kynni að vilja auka sjálfstæði sitt fullkomlega og hins vegar fulltrúa almannavaldsins? Mér sýnist, ef ég les frv., að það sem gerist sé það að ríkið tekur að sér allar kirkjujarðir og í staðinn skuldbindur það sig til ákveðinna launagreiðslna. Um þetta er fjallað í 1. og 2. gr. samkomulagsins sem gert er. Í endurskoðunarákvæðum þess samkomulags sem er í 4. gr. segir: ,,Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagsins að liðnum 15 árum frá undirritun þess.`` Nú er ég ekki lögfræðingur en 3. gr. fjallar um fyrirkomulag launagreiðslnanna sem ríkinu ber að sinna en ekki um samninginn sjálfan. Þess vegna spyr ég: Er það ekki svo að samningurinn gildir meðan annar aðilinn vill eins og venja er um samninga þannig að ef ríkið vildi endurskoða þennan samning t.d. í kjölfar umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju eða aðra tilhögun kirkjustarfs um hina evangelísk-lútersku kirkju í landinu eða, ef kirkjan vildi, þá stæði samningurinn nema um það næðist sérstakt samkomulag? Og vegna þess að við erum hér á vettvangi almannavaldsins en ekki kirkjunnar þar sem sum okkar gætu hugsanlega fjallað um þetta mál líka þá spyr ég : Er hér ekki verið að binda ríkið um alla framtíð við þetta samkomulag ef kirkjan kýs svo?