Staða þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:13:36 (3454)

1997-02-13 11:13:36# 121. lþ. 70.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:13]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svör hæstv. kirkjumrh. en vek athygli hans á því að það er ekki hægt að segja í senn að hér sé verið að gera umtalsverðar breytingar með hinni nýju skipan og að einungis sé vera staðfesta hina gömlu. Hin gamla skipan frá 1907 eða þar um kring var sú að kirkjan fól ríkinu vörslu jarða sem hún taldi sig hafa eignarrétt yfir og í staðinn borgaði ríkisvaldið ákveðin laun sem voru þannig tilgreind að þau væru afrakstur þessara jarða. Nú er hins vegar verið að gera samning sem mér sýnist vera endanlegur að því leyti að ríkið tekur til sín þessar jarðir og hefur yfir þeim fullan ráðstöfunarrétt. Á móti, óháð því hvað jarðirnar gefa af sér, skuldbindur ríkisvaldið sig til þess að borga þessi laun. Við getum sett það upp án þess að ég ætli að fara að hleypa hér að einhverri framtíðarmúsík en við erum að tala um hluti sem síðast var gerður samningur um í kringum 1907 þannig að það eru 90 ár síðan. Við erum því tala hér um ansi langt tímabil og þess vegna verðum við að fara varlega báðum megin. Ég spyr t.d. um það: Ef þessi atkvæðagreiðsla færi nú fram samkvæmt stjórnarskránni um ríki og kirkju, ef samþykkt yrði, og þess vegna með vilja kirkjunnar manna sem sumir eru á þeirri skoðun að ríki og kirkja skuli aðskilin eins og tíðkast í ýmsum lýðræðislöndum og ég er ekki að leggja dóm á hér hvort sé heppilegra, mundi þá ekki þessi samningur standa? Mundi kirkjan ekki, ef hún vildi, geta gert kröfu til þess á grunni þessa samkomulags að ríkisvaldið, um aldur og ævi þess vegna, borgaði þessi tilteknu laun? Ég er ekki að spyrja um hvort það sé gott eða vont og vil ekki láta flækja mér í þær deilur, a.m.k. ekki að sinni, heldur spyr ég um þetta vegna þess að þetta mun verða til grundvallar þeirri afstöðu sem allshn. tekur til málsins og þingheimur að lokum.