Biskupskosning

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:27:28 (3458)

1997-02-13 11:27:28# 121. lþ. 70.2 fundur 302. mál: #A biskupskosning# (kosningarréttur við biskupskjör) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:27]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um biskupskosningu. Það felur í sér að taka af tvímæli um það hverjir hafa kosningarrétt við biskupskjör. Hér er verið að leggja til að svokallaðir sérþjónustuprestar hafi kosningarrétt við biskupskjör svo og aðstoðarprestar sem ráðnir hafa verið af sóknarnefndum og að rektor Skálholtsskóla verði skipað við hlið kennara guðfræðideildar að því er þetta varðar, svo og guðfræðikandídötum sem starfa við embætti biskups við hlið biskupsritara. Við síðustu vígslubiskupskosningar komu upp nokkur ágreiningsefni vegna réttar til þátttöku í biskupskjöri og þykir rétt og eðlilegt að taka af skarið í þessu efni og ákveða það skýrt með lögum hvernig þessum málum skuli skipað.

Á þessu ári stendur fyrir dyrum biskupskjör í ljósi yfirlýsingar biskups þar um. Þess vegna er ekki unnt að bíða þess að kirkjan sjálf setji reglur um þetta efni með skírskotun til þess frv. sem rætt var fyrr á dagskránni vegna þess að þó það verði samþykkt á þessu þingi er ekki ætlunin að það taki gildi fyrr en um næstu áramót. Því er mikilvægt að þetta mál hljóti afgreiðslu nú á vorþinginu.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.