Skipan prestakalla

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:33:27 (3460)

1997-02-13 11:33:27# 121. lþ. 70.3 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:33]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, sem lagt hefur verið fram á þskj. 370.

Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér þá breytingu að guðfræðikandídat skuli starfa með sóknarpresti í tvo mánuði undir eftirliti prófasts í stað fjögurra mánaða eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Þetta frv. er flutt í þeim tilgangi að gefa kirkjunni kost á að hagræða fjárhagslega í sínum rekstri. Það er mat kirkjuyfirvalda að það sé nægjanlegt að hafa þennan hátt á í tvo mánuði og það megi spara umtalsverða fjármuni með því að gera þessa breytingu. Í fjárhagsáætlun kirkjunnar á þessu ári er gert ráð fyrir þessum sparnaði. Því er brýnt að Alþingi taki sem skjótast afstöðu til þessa máls. Það er rétt að taka fram að í frv. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er gert ráð fyrir því að atriði eins og þetta eigi að vera á valdsviði kirkjunnar sjálfrar en ekki löggjafarþingsins. En með því að ekki er gert ráð fyrir að það frv. taki gildi fyrr en um næstu áramót er nauðsynlegt að gera nú þegar breytingar á lögunum til þess að kirkjan nái þeim fjárhagslega sparnaði sem hún hefur stefnt að í rekstri sínum með þessari breytingu þegar á þessu ári.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.