Lögmenn

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:42:49 (3462)

1997-02-13 11:42:49# 121. lþ. 70.5 fundur 255. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:42]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um lögmenn, sem lagt hefur verið fram á þingskjali 475.

Frumvarp þetta er liður í heildarendurskoðun réttarfarslöggjafar er hófst með setningu laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Frumvarpið var samið á vegum réttarfarsnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Meginákvæði frumvarpsins lúta að reglum um lögmannsréttindi, hvernig menn öðlist slík réttindi og hvernig þeir verði sviptir þeim, um einkarétt lögmanna til að flytja mál fyrir dómstólum, aðild að Lögmannafélagi Íslands og hvernig hagað skuli eftirliti með störfum lögmanna og beitingu agaviðurlaga gagnvart þeim.

Í 6.--10. gr. frumvarpsins er að finna reglur um réttindi til að vera héraðsdómslögmaður og hæstaréttarlögmaður. Lagt er til að þeir sem sækjast eftir því að verða héraðsdómslögmenn verði að standast sérstakt próf í þeim greinum er helst varða rekstur lögmannsstarfa. Gert er ráð fyrir að þriggja manna nefnd undirbúi þessa prófraun. Þá er lagt til að auknar kröfur verði gerðar um starfsreynslu þeirra sem sækjast eftir því að verða hæstaréttarlögmenn. Gert er ráð fyrir að umsækjandi skuli hafa haft réttindi til að vera héraðsdómslögmaður í fimm ár og flutt a.m.k. 30 mál fyrir héraðsdómi áður en honum er heimilt að sækja um réttindi til að verða hæstaréttarlögmaður.

Í 3. mgr. 13. gr. frumvarpsins er fjallað um sviptingu lögmannsréttinda. Reglur frumvarpsins þar um eru mun markvissari en að gildandi lögum. Gert er ráð fyrir því að dómsmálaráðherra felli réttindi lögmanns úr gildi ef hann uppfyllir ekki lengur almenn skilyrði til að hljóta lögmannsréttindi eða starfsskilyrði sem lúta að skrifstofuhaldi, vörslufjárreikningum og starfsábyrgðartryggingu. Þá er í 14. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að dómsmálaráðherra geti að tillögu Lögmannaráðs fellt niður réttindi lögmanns vegna alvarlegra og ítrekaðra brota á siðareglum. Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að höfða dómsmál til ógildingar á ákvörðun ráðherra um niðurfellingu lögmannsréttinda.

Vikið er að endurveitingu lögmannsréttinda í 16. gr. Gert er ráð fyrir að umsækjandi verði að gangast á ný undir prófraun ef réttindasvipting hefur verið ótímabundin og byggst á lögbrotum hans eða brotum á siðareglum og að umsókn þar um verði fyrst lögð fram fimm árum eftir sviptingu. Réttindi verða að öðru leyti veitt aftur án þess að annað þurfi til að koma en umsókn frá viðkomandi.

[11:45]

Rétt er að vekja athygli á því að með frumvarpinu er gert ráð fyrir að horfið verði frá svokallaðri innlögn lögmannsréttinda eða ,,deponeringu`` þeirra, ef eitthvað skortir á að skilyrði til að mega nota þau séu uppfyllt. Þetta hefur einkum tíðkast þegar viðkomandi gegnir opinberu starfi, sem talið er ósamrýmanlegt handhöfn lögmannsréttinda. Lagt er til að réttindi verði einfaldlega felld niður og síðan veitt að nýju ef skilyrði skapast til þess síðar.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um einkarétt lögmanna til að flytja mál fyrir dómstólum landsins. Gert er ráð fyrir að haldið verði gildandi fyrirkomulagi um einkarétt lögmanna. Rök fyrir þeirri tilhögun hafa helst verið nefnd þau að hagsmunum manna sé best borgið í höndum lögmanna vegna þeirrar reynslu sem þeir búa yfir og þekkingar á réttarfarslögum. Með þessu verði því varnað að menn verði fyrir óþarfa réttarspjöllum, auk þess sem skilvirkni dómstóla muni aukast.

Ef horft er til annarra Norðurlanda er þess að geta að í Noregi og að mestu leyti í Danmörku njóta lögmenn einkaréttar til málflutnings. Einkaréttur lögmanna er ekki fyrir hendi í Svíþjóð og Finnlandi, en hins vegar eru einungis lögmenn skipaðir verjendur í opinberum málum og einungis lögmönnum er heimilað að veita réttaraðstoð sem greidd er af ríkinu samkvæmt lögum um opinbera réttaraðstoð.

Sjónarmið um réttaröryggi og neytendavernd styðja það fyrirkomulag að lögmenn hafi einkarétt til málflutningsstarfa.

Ein helsta breytingin sem ráðgerð er í frumvarpinu er afnám skyldu lögmanna til aðildar að Lögmannafélagi Íslands. Með stjórnarskipunarlögum, nr. 97/1995, var fest í stjórnarskrána ákvæði um neikvætt félagafrelsi, þ.e. rétt manna til að standa utan félaga. Er sú tilhögun í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Kveðið er á um þennan rétt í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að engan má skylda til aðildar að félagi. Sú undantekning er á að kveða má á um slíka skyldu til aðildar ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda manna. Íhugunarefni er hvort það hlutverk Lögmannafélagsins að hafa eftirlit með störfum lögmanna og beita agaviðurlögum geti réttlætt skylduaðild samkvæmt þessu undantekningarákvæði.

Um tilhögun á Norðurlöndum að þessu leyti má nefna að í Noregi er ekki skylduaðild að lögmannafélaginu. Í reynd eru þó um 90% allra lögmanna í félaginu og er talið ákveðið gæðamerki að lögmaður geti kynnt sig svo að hann sé í lögmannafélaginu. Meginreglan er sú að félagið fer með agavald gagnvart félagsmönnum sínum, en dómsmálaráðuneytið gagnvart utanfélagsmönnum.

Í Danmörku er skylduaðild að lögmannafélaginu. Stjórn þess hefur eftirlitsskyldu með félagsmönnum, en agavald er í höndum 18 manna lögmannanefndar. Ekki er bein skylduaðild að lögmannafélögum í Svíþjóð og Finnlandi, en menn mega ekki kalla sig lögmenn nema þeir séu þar félagar. Félög lögmanna fara með eftirlitshlutverk gagnvart lögmönnum, en agavald er í höndum nefnda sem að meiri hluta eru skipaðar lögmönnum.

Í þessu efni má velta fyrir sér hversu trúverðugt það er að fela lögmönnum að hafa eftirlit með sjálfum sér. Eftirliti með lögmönnum er hægt að koma á með öðrum hætti, án þess að Lögmannafélagið komi þar nálægt. Í frumvarpi þessu er lagt til að eftirlit þetta færist til stjórnvalda. Að sú stjórnsýsla sem felst í eftirliti með störfum lögmanna og beitingu agaviðurlaga verði annars vegar falin dómsmálaráðuneyti og hins vegar þriggja manna nefnd sem komið yrði á fót, svokölluðu Lögmannaráði.

Eðlilegt þykir, í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu og breytinga á stjórnarskránni, að afnema skylduaðild að Lögmannafélaginu. Þá er það í samræmi við almenn viðhorf til nútímastjórnsýsluhátta að lögmönnum verði ekki falið að hafa eftirlit með sjálfum sér heldur verði slíkt eftirlit í höndum opinberra aðila.

Herra forseti. Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir meginefni og markmiðum þessa frumvarps. Ég ítreka að heildarendurskoðun löggjafar er varðar réttarfarsleg málefni hófst fyrir nokkrum árum og þetta er einn þáttur í framhaldi þeirrar endurskoðunar, enda skiptir löggjöfin um starf lögmanna talsverðu máli í því efni.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.