Lögmenn

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 11:52:56 (3465)

1997-02-13 11:52:56# 121. lþ. 70.5 fundur 255. mál: #A lögmenn# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[11:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Herra forsetri. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Það sem ég var að sækjast eftir var að störf lögmanna utan réttar eru störf sem hinir ýmsu aðilar í samfélaginu fara með, viðskiptafræðingar, endurskoðendur og margir aðilar í samfélaginu fara með margvísleg störf utan réttar. Spurning mín snýr að því hvort eftirlitið sé nauðsynleg vegna starfa lögmanna innan réttar eða utan réttar. Mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram hjá hæstv. dómsmrh. Enn fremur fannst mér almenn tilvitnun í nútímastjórnsýsluhætti ekki bera þess vitni að nægilega hafi verið skilgreint hvað hæstv. dómsmrh. á við. Ég vildi því fá skýrar fram ef mögulegt er hvort um er að ræða eftirlit vegna starfa innan réttar, þ.e. fyrir dómstólunum, eða hvort um er að ræða eftirlit vegna starfa utan réttar. Mér finnst þetta skipta verulegu máli vegna þess að í frv. er engin tilraun gerð til að skilgreina nákvæmlega hvers vegna þetta eftirlit er nauðsynlegt.