Eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 12:15:01 (3468)

1997-02-13 12:15:01# 121. lþ. 70.6 fundur 218. mál: #A eignarréttur og afnotaréttur fasteigna# (EES-reglur) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[12:15]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna sem lagt hefur verið fram á þskj. 275.

Efni frumvarpsins er að þeir sem rétt eiga samkvæmt reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fjármagnsflutninga skuli ekki þurfa að afla sér sérstaks leyfis dómsmálaráðherra við fasteignakaup. Gilda þá um það sömu reglur og gilda um þá sem réttar njóta samkvæmt reglum EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt og þjónustustarfsemi.

Í því ákvæði laganna þar sem þetta ákvæði er að finna er kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur um til hvaða fasteigna réttur þessi taki og um framkvæmd réttarins að öðru leyti.

Það er ein af meginreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að aðilum í einu ríki innan svæðisins skal vera heimilt að fjárfesta í öðru ríki á svæðinu til jafns við aðra. Það felur í sér að takmarkanir sem settar eru við fjárfestingu skulu ganga jafnt yfir alla sem undir samninginn falla. Hér ber þó að nefna að Ísland fékk eins og alkunna er heimild til að viðhalda ótímabundið gildandi banni við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða.

Við gildistöku EES-samningsins voru Íslandi veittir frestir til að laga gildandi reglur um fjárfestingar erlendra aðila að ákvæðum samningsins, þar á meðal ákvæðum um fjárfestingu í fasteignum. Þeir frestir runnu út um síðustu áramót.

Á síðasta Alþingi voru samþykkt lög nr. 46/1996, um breytingar á lögum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri. Með þeim lögum voru reglur fjárfestingarlaganna um fjárfestingu erlendra aðila innan EES rýmkaðar til samræmis við ákvæði EES-samningsins. Í þeim lögum er svo vísað til laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að því er varðar rétt erlendra aðila til að öðlast eignarrétt og afnotarétt fasteigna til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni. Að því var hins vegar ekki gáð að breyta lögunum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna samtímis.

Frumvarp þetta er flutt til að bæta úr þessu þannig að sömu reglur gildi að þessu leyti um sviðin fjögur samkvæmt EES-samningnum.

Rétt er að hér komi fram að Eftirlitsstofnun EFTA, sem hefur því hlutverki að gegna að fylgjast með því að EFTA-ríkin innan EES fullnægi samningsskyldum sínum, hefur beint formlegri athugasemd til íslenskra stjórnvalda vegna ófullnægjandi framkvæmdar þeirra á ákvæðum tilskipunar þeirrar (nr. 88/361/EBE) sem fjallar um frjálst flæði fjármagns. Hefur Eftirlitsstofnuninni verið gerð grein fyrir framlagningu þessa lagafrumvarps.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað 2. umr. og til hv. allshn.