Umboðsmaður Alþingis

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 12:32:41 (3471)

1997-02-13 12:32:41# 121. lþ. 70.10 fundur 244. mál: #A umboðsmaður Alþingis# (heildarlög) frv., Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[12:32]

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um umboðsmann Alþingis. Forsn. flytur málið. Þetta er 244. mál þingsins á þskj. 381.

Embætti umboðsmanns Alþingis var stofnað með lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, en þau lög tóku gildi 1. janúar 1988. Á þeim rösklega níu árum sem liðin eru frá því að embætti umboðsmanns Alþingis var sett á stofn hafa orðið miklar framfarir í stjórnsýslunni hér á landi ekki síst fyrir tilverknað stjórnsýslulaganna frá 1993 og ekki fer á milli mála að embætti umboðsmanns á þátt í því að svo giftusamlega hefur til tekist og að við búum í dag við vandaðri og agaðri vinnubrögð en við áttum áður að venjast.

Hlutverk umboðsmanns er að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann á að gæta þess að jafnræði sé gætt í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Sú takmörkun er þó gerð á starfssviði umboðsmanns í núgildandi lögum að því aðeins fjallar umboðsmaður um stjórnsýslu sveitarfélaga að unnt sé að kæra ákvarðanir sveitarstjórna til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins.

Á þeim tíma sem liðinn er er komin nokkur reynsla á störf embættisins. Í upphafi var gert ráð fyrir að jafnhliða lögum um umboðsmann Alþingis yrðu sett almenn stjórnsýslulög. Það varð þó ekki fyrr en með stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er öðluðust gildi 1. janúar 1994. Ekki er fullt samræmi milli gildissviðs stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og starfssviðs umboðsmanns. Á þeim tíma sem embætti umboðsmanns hefur starfað hafa verkefni verið flutt frá ríki til sveitarfélaga og fyrirhugað er að flytja önnur.

Samkvæmt stjórnskipun íslenska ríkisins er opinber stjórnsýsla í höndum ríkis og sveitarfélaga. Við samningu frv. þessa hefur verið lagt til grundvallar að ákvæðum laga um starfssvið umboðsmanns verði breytt á þá lund að starfssviðið nái til allrar opinberrar stjórnsýslu bæði ríkis og sveitarfélaga. Að auki hafa verið gerðar aðrar breytingar sem heppilegt þótti að gera með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af störfum umboðsmanns Alþingis. Helsta efnisbreytingin sem frv. hefur í för með sér er sú að starfssviði umboðsmanns er breytt að því er snertir stjórnsýslu sveitarfélaga. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, hefur umboðsmaður almennt ekki eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga nema um sé að ræða ákvarðanir sem skjóta má til æðra stjórnvalds á vegum ríkisins. Aðrar ákvarðanir og athafnir sveitarstjórna og annarra stjórnvalda sveitarfélaga sem ekki eru kæranlegar með þessum hætti falla því almennt utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis. Umdeilanlegt má telja hvort þessi takmörkun á starfssviði hafi í upphafi átt rétt á sér. Hvað sem því líður er a.m.k. ljóst að vegna umtalsverðra breytinga á verkefnum og störfum sveitarfélaga er þörf á að huga að tilhögun eftirlits með stjórnsýslu sveitarfélaga þar með talið eftirliti umboðsmanns Alþingis með sveitarfélögum.

Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1994 benti umboðsmaður á að mörg verkefni hefðu þegar verið flutt frá ríki til sveitarfélaga og fyrirhugað væri að flytja önnur. Í ljósi þessarar þróunar taldi umboðsmaður ástæðu til að vekja athygli Alþingis á nauðsyn þess að jafnframt væri hugað að tilhögun eftirlits með stjórnsýslu sveitarfélaga. Taldi umboðsmaður eðlilegt að Alþingi tæki afstöðu til þess hvort breyta ætti lögum um umboðsmann Alþingis yrði framhald á tilflutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Í frv. er lagt til að gerð verði sú breyting á starfssviði umboðsmanns að takmarkanir þær sem felast í 3. gr. gildandi laga verði felldar brott. Það er rétt að geta þess að eftir slíkri breytingu hefur verið leitað við Alþingi af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.

Með 2. mgr. 3. gr. frv. er einnig gerð sú breyting að starfssvið umboðsmanns tekur einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði þetta tryggir að komið verður á betra samræmi á milli starfssviðs umboðsmanns Alþingis annars vegar og gildissviðs stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hins vegar.

Af öðrum breytingum sem frv. miðar að er að nefna ákvæði sem kveða á í skýru og samfelldu máli hvernig störfum umboðsmanns skal haga og hverra heimilda hann getur neytt í þágu starfs síns. En flest þessi ákvæði eru nú í reglum nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Með töku þessara ákvæða í lögin sjálf verða lögin skýrari um störf og starfshætti umboðsmanns og tvímæli tekin af um heimildir hans.

Í 6. og 7. gr. og 9.--11. gr. frv. eru breytingar af þessum toga þótt þær sé víðar að finna.

Í 2. og 3. gr. frv. er til skýringarauka greint annars vegar hvert hlutverk umboðsmanns er og hins vegar hvert starssvið umboðsmanns er.

Í 4. og 5. gr. frv. er greint betur á milli þeirra mála sem hefjast að frumkvæði aðila sem telur rétt á sér brotinn og svo þeirra mála sem byrja að frumkvæði umboðsmanns Alþingis.

Í 13. gr. frv. er mælt fyrir um lagabreytingu sem ætlað er að tryggja sjálfstæði umboðsmanns gagnvart handhöfum framkvæmdarvaldsins sem hann hefur eftirlit með.

Loks má nefna breytingar í tilefni af stjórnarskipunarlögum nr. 56/1991. Þannig fer t.d. kosning umboðsmanns Alþingis ekki lengur fram í sameinuðu þingi.

Ég tel ekki þörf á að fjalla nánar um efni frv. og vísa um nánari skýringar til grg. þess og athugasemda. Ég nefni þó að marka þarf skýrslu umboðsmanns á ákveðinn farveg í umfjöllun Alþingis en rétt sýnist að taka það mál upp við endurskoðun þingskapalaga. Ég tel heppilegast, eins og áður hefur komið fram við önnur tækifæri, að stofna nýja þingnefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um skýrslu umboðsmanns og raunar aðrar skýrslur sem lagðar eru fyrir Alþingi.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umr. og hv. allshn.