Umboðsmaður Alþingis

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 12:39:51 (3472)

1997-02-13 12:39:51# 121. lþ. 70.10 fundur 244. mál: #A umboðsmaður Alþingis# (heildarlög) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[12:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til laga um umboðsmann Alþingis sem vissulega er þess eðlis að nauðsynlegt er að alþingismenn gefi góðan gaum að einkum og sér í lagi með það í huga hversu umfang umboðsmannsins hefur vaxið ár frá ári og vegna þeirra fjölmörgu mála sem einstaklingar hafa leitað til umboðsmanns með. Ber þar margt á góma eins og skýrsla umboðsmanns sýnir og hefur sýnt í gegnum árin. Það er ótrúlegt stundum þegar skýrslan er skoðuð hvernig ýmsar ríkisstofnanir hafa brugðist sérkennilega við þegar einstaklingur hefur leitað réttar síns.

Virðulegi forseti. Margar ríkisstofnanir hafa verið ákaflega tregar til svara og oftar en ekki til samstarfs jafnvel við umboðsmann Alþingis og þegar skýrslan er grannt skoðuð má oft lesa á milli lína að erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar.

Af því tilefni er ég hér kominn upp, virðulegi forseti, og vildi þá einkum ræða um 7., 10. og 12. gr. þessa frv. En í 7. gr. frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Umboðsmaður Alþingis getur krafið stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem mál snerta.``

Ef litið er svo aftur á 10. gr. Þar er talað um lyktir málsins, hvernig umboðsmaður geti lokið þeim málum sem hann fjallar um. Í 12. gr. er síðan talað um skýrslu umboðsmanns Alþingis og þar kem ég kannski að kjarna málsins. Það er sá eini staður í lögunum þar sem kveðið er á um tímasetningar, hvenær umboðsmaður Alþingis eigi að skila málum frá sér. Og þar segir, með leyfi forseta:

,,Umboðsmaður skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert.``

Það eru miklar væntingar einstaklinga úti í bæ til þessa embættis og oftar en ekki fylgir mikið málavafstur og einstaklingar eiga jafnvel oft um sárt að binda. Þess vegna vil ég beina því, virðulegi forseti, til forsn. hvort ekki sé eðlilegt, í ljósi þess að mörg embætti innan stjórnsýslunnar eru ákaflega treg í taumi og treg til að svara, að umboðsmaður Alþingis hefði það vald að hann gæti sett á tímamörk hvenær viðkomandi stofnun mundi svara þeim málum sem umboðsmaður beindi til viðkomandi stofnana ríkisins eða þeirra stjórnsýslustofnana sem leitað er til. Ég hef áður komið inn á þetta mál þegar flutt var skýrsla umboðsmanns Alþingis og benti á þá nauðsyn að tímamörk væru hvað áhrærði kröfurétt umboðsmanns Alþingis til að kalla mál til sín. Það er það eina sem mér finnst vanta hér á, í annars ágætu frv.