Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:30:45 (3475)

1997-02-13 13:30:45# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:30]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þann 21. janúar sl. úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

,,Leit má fara fram á heimili Donalds Hanes og Connie Jean Hanes á Borgarholtsbraut 72 í Kópavogi í því skyni að finna Zenith Elaine Helton og taka hana úr umsjón þeirra.``

Sama dag var einnig kveðinn upp úrskurður í sama dómi um farbann á Hanes-hjónin utan nánar tiltekins svæðis. Þótt fulltrúi héraðsdómara hafi í fyrri úrskurði sínum hafnað kröfu um að fela barnaverndaryfirvöldum í Kópavogi forsjá barnsins sóttu barnaverndaryfirvöld það í leikskólann eftir að fulltrúar Rannsóknarlögreglu ríkisins höfðu fylgst með þegar Connie Jean Hanes fór með barnið þangað um morguninn. Barnið var síðan vistað á óþekktum stað á vegum barnaverndaryfirvalda um sinn.

Í dómskjölum frá Bandaríkjunum varðandi málaferli þau sem urðu vegna ættleiðingar barnsins í Arizona, sem lyktaði með því að líffræðileg móðir þess fékk að lokum forræði yfir því þrátt fyrir að tveir af þremur sálfræðingum sem rannsökuðu barnið á vegum réttarins álitu að barninu væri fyrir bestu að dvelja áfram hjá Hanes-hjónunum, er því slegið föstu að þau séu mjög hæfir foreldrar og barnið hafi óvenjusterk tilfinningatengsl við þau. Ljóst er að það er vegna hinna áðurnefndu sterku tilfinningatengsla að dómari úrskurðar að þau hjónin ættu áfram að hafa reglulega umgengni við barnið og það var til að uppfylla ákvæði þess úrskurðar sem þau hjónin fluttu frá Utah til Arizona.

Að þessu athuguðu getur maður ímyndað sér þá skelfingu sem gripið hefur litlu telpuna þegar ókunnugt fólk sækir hana í leikskólann og fer með hana til dvalar á óþekktum stað. Þar sem ekki var áður kannað hvaða áhrif þetta brottnám kynni að hafa á barnið eins og lög kveða á um að gert skuli er augljóst að réttindi barnsins hafa verið fyrir borð borin. Hanes-hjónunum var algjörlega meinað að hitta barnið á meðan á umræddri vistun stóð jafnvel þótt víst megi telja að það kynni að hafa létt hugarangur telpunnar ef það fólk sem hún þekkti sem foreldra sína hefði fengið tækifæri til að hitta hana og útskýra málið. Ekki verða séð nein efnisrök fyrir þeirri meðferð sem Hanes-hjónin og barnið sættu í þessari lögregluaðgerð. Þetta fólk hafði gengið barninu í foreldrastað nánast frá fæðingu, haft mikla umgengni við það þann tíma sem það hafði dvalið hjá móður sinni og samfellt þá 15 mánuði sem þau hafa undanfarið dvalið á Íslandi. Þau höfðu verið metin mjög hæf sem foreldrar í þeirri ítarlegu rannsókn sem fór fram í tengslum við ættleiðingarmálið og síðar vegna forræðismálsins.

Rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, Þórir Oddsson, gefur þá skýringu á framferði lögreglunnar að samkvæmt lögum eigi ákvæði Haag-samningsins aðeins við um ólögmætan brottflutning eða hald sem átt hafi sér stað eftir að samningurinn öðlaðist gildi, 1. des. 1996, og því eru aðfarirnar skýrðar með tilvísun til eldri laga. Hvort sá skilningur rannsóknarlögreglustjóra stenst fyrir Hæstarétti eða ekki fæst ekki upplýst þar sem dóms- og kirkjumrn. svipti í raun með athöfnum sínum Hanes-hjónin málskotsrétti sínum til réttarins.

Ég álít að með tilliti til grundvallarreglna um verndun mannréttinda hafi engin ástæða verið til að líta á umrætt fólk sem mannræningja. Þarna er augljóslega um að ræða mikinn fjölskylduharmleik. En heimilisböl er eins og kunnugt er þyngra en tárum taki. Þetta forræðismál sem hefur flækst fyrir dómurum í mörgum ríkjum er mjög flókið. Ég ætla mér ekki þá dul að kveða upp einhvern úrskurð í því hér. En mér finnst þó brýnt að allir eigi þess kost í þessu landi að fá að leita réttar síns eftir þeim leiðum sem til þess eru. Meðal þeirra er rétturinn til að úrskurði megi vísa til Hæstaréttar og það gerðu Hanes-hjónin. En þar er nú heldur betur pottur brotinn í þessu máli. Þau Hanes-hjónin skutu málinu til Hæstaréttar með kæru þann 23. janúar og gerðu kröfu um að úrskurði Héraðsdóms Reykjaness yrði hnekkt og barninu skilað til þeirra. En barnið hafði samkvæmt úrskurði dóms- og kirkjumrn. þá verið afhent starfsliði bandaríska sendiráðsins í Reykjavík þrátt fyrir að lögmanni Hanes-hjónanna hafi af sama ráðuneyti verið lofað að það yrði ekki gert nema að undangengnum dómsúrskurði Hæstaréttar. Í sendiráðinu var telpan umkringd sjónvarpsvélum, umsvifalaust fengin í hendur móðurinni, Kelly Helton, sem fór með hana af landi brott þann 24. janúar.

Að líkindum kætast þeir nú mjög hjá Unsolved Mysteries.