Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:36:16 (3476)

1997-02-13 13:36:16# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:36]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda að það mál sem hér er fjallað um er fjölskylduharmleikur. En það bar að þannig að með bréfi dagsettu 8. jan. 1997, barst Interpol-deild Rannsóknarlögreglu ríkisins fyrirspurn frá sendiráði Bandaríkjanna í London þar sem spurst var fyrir um hvort tveir bandarískir ríkisborgarar, hjónin Connie Jean Hanes og Donald Hanes, væru búsettir hér á landi. Fram kom í bréfinu að þau voru eftirlýst í Bandaríkjunum, grunuð um brottnám á barninu Zenith Elaine Helton.

17. janúar sl. barst dóms- og kirkjumrn. síðan bréf frá sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík þar sem farið var fram á að reynt yrði að koma í veg fyrir hugsanlegan flótta Hanes-hjónanna frá Íslandi og að barnið yrði tekið úr þeirra umsjá. Í bréfinu kom einnig fram að til stæði að ógilda vegabréf Hanes-hjónanna samkvæmt kröfu frá bandaríska innanríkisráðuneytinu. Að kvöldi 17. janúar sl., barst Interpol-deild RLR alþjóðleg handtökuskipun á hendur Hanes-hjónunum þar sem farið var fram á að þau yrðu handtekin og að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að tryggja nærveru þeirra þar sem bandarísk stjórnvöld mundu fara fram á að þau yrðu framseld til Bandaríkjanna.

Hinn 20. janúar setti Rannsóknarlögregla ríkisins fram kröfu um húsleit á heimili Hanes-hjónanna og töku barnsins úr þeirra umsjá hjá Héraðsdómi Reykjaness. Með úrskurði, uppkveðnum þann dag, var handtaka Hanes-hjónanna heimiluð svo og húsleit á heimili þeirra og taka barnsins úr þeirra umsjá.

Ákvörðun ráðuneytisins um afhendingu barnsins til bandarískra stjórnvalda byggðist á eftirtöldum atriðum:

Allir aðilar þessa máls voru bandarískir ríkisborgarar. Í málinu liggja fyrir skýrir dómar um réttarstöðuna í máli þessu frá 24. jan. 1995 þegar kveðinn var upp dómur um að móðirin hefði forsjá barnsins Zenith Elaine Helton. Er sá dómur endanleg niðurstaða í málinu. Engar lagalegar forsendur eru fyrir íslensk stjórnvöld eða dómstóla að taka málið til efnislegrar úrlausnar hér. Það má einnig benda á að samkvæmt íslenskum barnaverndarlögum geta Hanes-hjónin ekki átt aðild að forsjármáli. Samkvæmt íslenskum lögum geta þau ekki fengið forsjá barnsins. Það hefði aldrei getað orðið niðurstaða dómstóla hér samkvæmt íslenskum lögum.

Í Haag-samningi um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sem lögfestur hefur verið hér á landi, segir í 7. gr. að móttökustjórnvaldið, sem hér á landi er dómsmrn., skuli m.a. tryggja að börnum verði skilað sem fyrst. Einkum skuli þau gera allt sem við á til að koma í veg fyrir að barnið bíði frekari skaða af málinu og til að þær stjórnvaldsaðgerðir verði gerðar sem nauðsynlegar eru og viðeigandi til að tryggja að barninu verði skilað heilu á húfi.

Í samningnum er sú skylda lögð á stjórnvöld í aðildarríkjum hans að tryggja að börnum verði skilað sem fyrst. Skulu þau m.a. gera allt sem við á til að koma í veg fyrir að viðkomandi barn bíði frekari skaða af brottnámi eða haldi.

Einnig má benda á að í 1. gr. samningsins segir að markmið samningsins séu að tryggja að börnum sem flutt eru með ólögmætum hætti til samningsríkis sé skilað sem fyrst og að sjá til þess að forsjárréttur og umgengnisréttur samkvæmt lögum eins samningsríkis sé í raun virtur í öðrum samningsríkjum. Þá segir í 2. gr. samningsins að samningsríki skuli grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að tryggja að markmiðum samningsins verði náð innan landsvæða sinna. Orðrétt segir:

,,Í þessu skyni skulu þau beita skjótustu málsmeðferð sem völ er á.``

Umræddur samningur var lögfestur, eins og fram hefur komið, hér á landi árið 1995. Með hliðsjón af þessu og grundvelli þess mats að réttarstaðan í þessu máli væri ótvíræð taldi ráðuneytið ekkert því til fyrirstöðu að afhenda bandið bandarískum stjórnvöldum. Hér er eins og fram hefur komið um að ræða bandaríska ríkisborgara sem að sjálfsögðu geta borið öll sín mál undir dómstóla í sínu heimalandi.