Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:40:33 (3477)

1997-02-13 13:40:33# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:40]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er borið inn á þing, og ég vil þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að gera, snýst um grundvallarmannréttindi. Það snýst um að menn geti fengið úrskurð um ágreining sinn fyrir dómstólum. Um það snýst málið. Í dómi Hæstaréttar segir svo, með leyfi forseta:

,,Með þeirri ákvörðun sem áður er getið svipti ráðuneytið varnaraðila í reynd rétti þeirra til að leggja réttarágreining sinn og sóknaraðila undir dóm Hæstaréttar. Ákvörðun ráðuneytisins um að ráðstafa því sem hald var lagt á samkvæmt hinum kærða úrskurði átti sér hvorki stoð í X. kafla laga nr. 19/1991 [um meðferð opinberra mála] né annars staðar í lögum. Með henni voru höfð afskipti af máli sem að öðrum kosti hefði verið skorið úr með dómi innan fárra daga.``

Með öðrum orðum er brotinn réttur einstaklinga að geta borið ákvarðanir og aðgerðir íslenskra stjórnvalda undir dómstóla og dómsmrh. gerist svo djarfur að taka þennan sjálfsagða rétt af þessum aðilum með hreint ótrúlegum aðgerðum. Ég efast um að nokkurs staðar þar sem mannréttindi eru virt í raun kæmist hæstv. dómsmrh. upp með þetta. Hann er að svipta bandaríska ríkisborgara rétti sínum til að skjóta aðgerðum íslenskra stjórnvalda til Hæstaréttar og fá úrskurð á þeim ágreiningi fyrir dómstólum. Þetta er einstætt, alveg einstætt. Það er með ólíkindum að þetta mál skuli ekki hafa verið tekið fastari tökum.

Ég vil enn og aftur þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að bera þetta mál fram því þetta er íslenskum stjórnvöldum til háborinnar skammar.