Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:58:22 (3485)

1997-02-13 13:58:22# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:58]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hæstv. dómsmrh. mætti ekki tala að nýju en því miður liggur það fyrir í þessu máli að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að dóms.- og kirkjumrn. hafi brotið alvarlega gegn grundvallarmannréttindum þeirra aðila sem vildu fá úrskurð Hæstaréttar um ágreiningsmál sín. Þrátt fyrir það hefur dómsmrh. reynt að koma sér undan því að svara hvernig hann ætlar að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar. Hann hefur heldur ekki á neinn hátt reynt að bera blak af sjálfum sér vegna þessarar niðurstöðu. Eftir sem áður stendur því það að dóms- og kirkjumrn. svipti bandaríska ríkisborgara þeim rétti að fá skotið til Hæstaréttar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness vegna stjórnvaldsákvarðana sem undir dómstólinn voru bornar, því miður. Þetta stendur eftir: Dóms- og kirkjumrn. svipti þá aðila þessum grundvallarmannréttindum sínum. Það er niðurstaða Hæstaréttar. Við því verður á einhvern hátt að bregðast.