Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 14:32:54 (3493)

1997-02-13 14:32:54# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[14:32]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. forseta Alþingis sem mælti fyrir frv. um Ríkisendurskoðun er hér verið að endurskoða og breyta tíu ára gamalli löggjöf um þá stofnun. Ég tel fulla þörf á því vegna þess að á þessum tíu árum hafa orðið mörg nýmæli og nýjar hugmyndir um ríkisreksturinn og rétt að sníða löggjöfina um þessa mikilvægu stofnun að þeim hugmyndum.

Ég mun koma örlítið að tveimur eða þremur veigamiklum atriðum í frv. Þar er fyrst til að taka að í 6. gr. er gerð tillaga um að Ríkisendurskoðun skuli hafa með höndum endurskoðun reikninga vegna samninga um rekstur sem ríkið kann að gera við sveitarfélög eða einkaaðila og fela í sér að þeir annist lögboðna þjónustu er ríkissjóði ber að greiða fyrir. Þessir samningar hafa ýmist verið kallaðir þjónustusamningar eða samningar um rekstrarverkefni. Þeir eru í sjálfu sér ekki nýir af nálinni. Þeir hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu missirum þó. Einkenni þeirra eru, eins og áður segir, að þeir fjalla um að aðrir en ríkið sjálft annist verkefni sem lög kveða á um að ríkið skuli annast og kosta. Hér er með öðrum orðum um að ræða verkefni eða þjónustu sem borgararnir eiga lögvarinn rétt á að hafa aðgang að á kostnað ríkissjóðs. Dæmi um verkefni af þessu tagi eru samningar við lækna um rekstur heilsugæslustöðva en a.m.k. einn slíkur samningur hefur verið gerður, samningur um rekstur meðferðarstofnana ýmiss konar o.s.frv.

Eins og rakið er í grg. frv. hefur verið nokkur vafi uppi um hvernig staðið skuli að endurskoðun og eftirliti með samningum af þessu tagi af hálfu fjárveitingavaldsins eða fjárstjórnarvaldsins. Taka verður undir það að tryggja verði að Alþingi geti haft svipaða möguleika á að kanna og hafa eftirlit með þessum útgjöldum og þegar ríkið velur sjálft að láta hana í té. Það þarf ekki síður að tryggja að upplýsingar um þennan rekstur séu til taks og aðgengilegar í sama formi og þegar um er að ræða ríkisrekstur þannig að hægt sé að stunda samanburðarrannsóknir á kostnaði og mat á hagkvæmni þeirra kosta sem fyrir hendi eru. Með því að fela Ríkisendurskoðun þetta hlutverk á að vera tryggt að Alþingi geti sinnt þessu eftirliti á fullnægjandi hátt. Það er rétt að undirstrika það að heimildir stofnunarinnar til endurskoðunar á rannsókn á fjárreiðum viðkomandi verktaka geta aldrei náð til annarra þátta en þeirra sem beinlínis snúa að samningnum sjálfum.

Eftir sem áður er margt óljóst um réttarstöðu aðila samkvæmt þessum samningum en við afgreiðslu frv. um fjárreiður ríkissjóðs, sem er til meðferðar í þinginu um þessar mundir, verða réttindi þeirra og skyldur vonandi skýrðar betur. Það á hins vegar enginn vafi að leika á heimildum Ríkisendurskoðunar í þessum efnum.

Ég vil einnig nefna að í 9. gr. frv. er langtum nákvæmara og skýrar kveðið á um heimildir Ríkisendurskoðunar til að gera hinar svokölluðu stjórnsýsluathuganir sem hún hefur lagt ríka áherslu á á undanförnum árum. Gildi þessarar heimildar er ótvírætt og árangur af starfi stofnunarinnar á þessu sviði hefur verið verulegur á undanförnum árum. Að mínu mati er nauðsynlegt að heimildir þessar séu mjög rúmar en jafnframt skýrar eins og frv. gerir reyndar ráð fyrir.

Ég mun koma örlítið að því síðar í eftirfylgdinni með þessum athugunum en víkja aðeins áður að því nýmæli í frv. sem hefur verið gert að umræðuefni af framsögumanni og hv. 4. þm. Austurl. en það er heimild Ríkisendurskoðunar til að kanna hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála --- það sem hefur verið kallað umhverfisendurskoðun. Hún er mjög vaxandi þáttur í starfi hliðstæðra stofnana í nágrannalöndunum og í hinum vestræna heimi. Þar er hún talin mikilvægt stjórntæki ef svo má að orði komast við nýtingu á umhverfi og náttúruauðlindum. Nú þegar er á alþjóðavettvangi unnið að stöðlum á þessu sviði og er þróunin á þessum vettvangi mjög ör. Það er nauðsynlegt í ljósi hennar og mikilvægis umhverfismála almennt að gera Ríkisendurskoðun kleift að sinna hlutverki á þessu sviði. Ég geri mér grein fyrir því að auðvitað mun taka nokkurn tíma að móta þetta starf þar sem hér er um nýmæli að ræða en ég sé fyrir mér að það muni m.a. beinast að því að leggja fjárhagslegt mat á kostnað af nýtingu og spjöllum á umhverfinu.

Um það hefur verið rætt og oft borið hér á góma hvernig eigi að fylgja eftir skýrslum Ríkisendurskoðunar um hin ákveðnu málefni. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hæstv. forseta að á því máli verður að taka í tengslum við þá vinnu sem fram fer um breytingu þingskapa og varðandi endurskoðun á verksviði þingnefnda. Ég er ekki fráhverfur þeirri hugmynd sem hann nefndi að komið væri á fót sérstakri nefnd sem fjallar um þessi mál, tekur þessa skýrslu til meðferðar og gengur frá áliti á þeim á þingskjali, þannig að þingið afgreiði málið formlega frá sér. Það er ekki gert um þessar mundir og þetta er eitt af því sem þarf að lagfæra í störfum þingsins. Ef gengið væri formlega frá þessum skýrslum af hálfu þingsins, umræða færi fram og nál. lægju fyrir þá hefði það mikil aðhaldsáhrif, ég er sannfærður um það.

Það hefur komið fram að um þessar mundir fer fram úttekt á störfum Ríkisendurskoðunar. Það er breska ríkisendurskoðunin sem annast þá úttekt. Ég held að það sé af hinu góða og eigi eftir að leiða til þess að hin mikilvæga stofnun fær enn meira vægi en hún hefur. Það voru mikil tímamót þegar Ríkisendurskoðun var færð frá framkvæmdarvaldinu og undir Alþingi og ég tel að við alþingismenn eigum að setja metnað okkar í að efla þessa stofnun því að hlutverk hennar er afar mikilvægt í nútímaþjóðfélagi.