Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 14:44:19 (3495)

1997-02-13 14:44:19# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[14:44]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hér hefur áður komið fram. Ég held að það hafi verið mikið gæfuspor sem Alþingi tók þegar lög nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, voru samþykkt og Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi Íslendinga. Það er ánægjulegt til þess að vita að við höfum átt hin ágætustu samskipti við Ríkisendurskoðun bæði í tíð fyrrverandi ríkisendurskoðanda og núverandi.

Í fljótu bragði sýnist mér að þetta nýja frv. sé allt til bóta en þó vil ég aðeins varpa fram spurningum sem kunna að byggjast á því að ég hef fyrst lesið þetta í dag.

Í 9. gr. er talað um að Ríkisendurskoðun sé heimilt að kanna hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála. Vissulega er ekkert nema gott eitt um það að segja. En þá vaknar sú spurning, ef ég skil ákvæðið rétt. Hvað þá með aðra þætti í samfélaginu svo sem eins og jafnréttismál og réttindi barna? Allt hefur þetta áhrif á rekstur samfélagsins. Við gætum hugsað okkur t.d. að svo sannarlega væri ástæða til þess að gera á því úttekt hvað þær sviptingar sem átt hafa sér stað í heilbrigðiskerfinu hafa kostað samfélagið á síðustu tæpum tveimur árum. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forseta þingsins og málflytjanda án þess að ég rýri gildi umhverfismála --- af hverju ekki aðra þætti sem vissulega skipta máli líka og hafa umtalsverð fjárhagsleg áhrif á allt líf okkar?

Þá vaknaði önnur spurning líka í mínum huga. Talað er um að Ríkisendurskoðun eigi að kanna stofnanir sem birtast í ríkisreikningi og fjárlögum. Stærsta fyrirtækið í landinu er auðvitað þjóðfélagið sjálft, þ.e. við öll. Þess vegna vildi ég spyrja: Útiloka þau ákvæði sem hér eru það að Ríkisendurskoðun kanni hvernig hagur landsmanna breytist, hinna almennu launþega, sem eiga þetta fyrirtæki og borga brúsann? Ég átta mig ekki á því hvort hugsanlegt væri að óska eftir að Ríkisendurskoðun kannaði áhrif kjarasamninga, áhrif aðgerða stjórnvalda sem fólk finnur sannarlega fyrir. Eða er samfélagið ekki ríkisfyrirtæki? Þessu held ég að verði að svara í þeirri nefnd sem fer með málið.

Það er sem sagt þetta tvennt sem mér leikur hugur á að vita. Hvers vegna þetta sérákvæði um umhverfismál fremur en jafnréttismál, réttindi barna, aldraðra, fatlaðra, allra þeirra hópa í þjóðfélaginu sem eiga hagsmuna að gæta í hinum almenna rekstri samfélagsins. Og í öðru lagi: Hvar stendur fyrirtækið, ,,við``? Má kanna hag okkar líka?