Þjónusta við einhverf börn

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:16:23 (3511)

1997-02-17 15:16:23# 121. lþ. 71.1 fundur 193#B þjónusta við einhverf börn# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á síðasta ári var sett á stofn sambýli fyrir einhverf börn í Tjaldanesi og það bætti úr mjög brýnni þörf því þarna var um skelfilegt ástand að ræða. Ég tel að óhjákvæmilegt hafi verið að koma þessu heimili á fót og það hafi verið forgangsverkefni í þessum málaflokki.

Í öðru lagi er áformað að setja á stofn fagteymi. Ég hef beðið um tillögur frá Greiningarstöðinni um hvernig því verði best háttað. Ég hef satt að segja ekki spurt eftir því allra síðustu daga hvert þær tillögur væru komnar. Það kann að vera að þær séu komnar í ráðuneytið, ég þori ekki að fullyrða það. En það er áformað að koma því á fót. Nú skal ég ekki segja um kostnað af þessu fagteymi, hvað það þurfi mikið fjármagn til starfsemi sinnar en því verður komið á fót.

Í þriðja lagi vil ég láta það koma fram að áform eru um að koma á helst tveimur sambýlum fyrir einhverfa á þessu ári.