Hækkun á gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:21:00 (3516)

1997-02-17 15:21:00# 121. lþ. 71.1 fundur 194#B hækkun á gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:21]

Mörður Árnason:

Virðulegur forseti. Í desember sl. hækkaði fyrirtækið Póstur og sími gjaldskrá sína á innanlandssímtölum. Þetta var ekki almenn prósentuhækkun og var því ekki til að leiðrétta verðlagsþróun heldur beinlínis efnisleg breyting á gjaldskránni einmitt á markaði þar sem fyrirtækið nýtur einokunar. Þessi hækkun var frá 10% á stutt samtöl, kvöld og nótt, og upp í 32%, langt símtal á daginn, sem reyndar er einn helsti gjaldskrárliður fyrir samskipti á alnetinu. Til að gæta allrar sanngirni voru samtöl við útlönd m.a. Hong Kong og Singapúr lækkuð nokkuð um leið.

Þessari hækkun var á sínum tíma mótmælt af forustumönnum í verkalýðshreyfingunni og ekki síður af Neytendasamtökunum. Þingið var þá í fjárlögum þannig að þetta hefur kannski ekki vakið mikla athygli hér í þessu húsi. Neytendasamtökin gengu lengra en að hrópa og kalla og kröfðust skýringa á þessari hækkun m.a. með bréfi til Pósts og síma. Afrit af því bréfi var sent þremur ráðherrum, hæstv. samgrh., forsrh. og viðskrh. Þar var einkum krafist skýringa á tvennu. Í fyrsta lagi forsendu hækkunarinnar, sérstaklega í ljósi verulegs hagnaðar Pósts og síma á fjarskiptum. Spurt var um það m.a. hvort þetta væri í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að gæta stöðugleika í verðlagsþróun. Þá var einnig beðið um, til að hægt væri að meta þessa hækkun og svör Pósts og síma, upplýsingar um raunkostnað Pósts og síma við innanlandssímtöl. En slíkar upplýsingar hlýtur Póstur og sími að hafa eins og hvert annað venjulegt fyrirtæki með mikil umsvif. Póstur og sími hefur nú sent svarbréf en ekki svarað spurningunum. Spurningarnar eru mikilvægar. Þær eru mikilvægar vegna þess að fyrirtækið er einrátt um efnislegar breytingar á þessari gjaldskrá á einokunarmarkaði. Þær eru mikilvægar vegna þess að fyrirtækinu sem einokunarfyrirtæki í ríkiseigu ber sérstök skylda til að gefa fulltrúum almennings nákvæmar upplýsingar. Þær eru mikilvægar vegna þess að menn hafa kvartað yfir framkomu PS á markaði sem varðar alnetið og þær eru auðvitað mikilvægastar vegna þess að þær auka útgjöld heimilanna í landinu. (Forseti hringir.) Þess vegna hlýt ég að gefa hæstv. ráðherra samgöngumála tækifæri til að svara þeim spurningum hér. Af hverju stafar hækkun Pósts og síma á innanlandssímtölum? Hvaða hugmynd hefur hæstv. samgrh. um raunkostnað Pósts og síma við símtal innan lands?