Hækkun á gjaldskrá Pósts og síma

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 15:27:24 (3519)

1997-02-17 15:27:24# 121. lþ. 71.1 fundur 194#B hækkun á gjaldskrá Pósts og síma# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[15:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það hefur verið stefna mín og ég vissi ekki betur en það hefði einnig verið stefna Alþfl. að reyna að lækka gjöld fyrir símtöl milli landa, að þau yrði ekki áberandi dýrari hér en annars staðar. Því auðvitað erum við hluti af okkar umhverfi og við getum ekki einangrað okkur frá umhverfinu, Íslendingar, þó við svo vildum. En hér kemur fram hjá hv. þm. þessi gamla þröngsýni að við Íslendingar getum lifað án tillits til umhverfis okkar og getum haldið uppi fjarskiptum til annarra landa á allt öðrum grundvelli en þar er gert. Auðvitað er slíkt ekki hægt. Í annan stað get ég ekki skilið hv. þm. þegar hann heldur því fram að hægt sé að tala um hagnað Pósts og síma áður en kemur til þess að hann greiði lögboðin gjöld t.d. samkvæmt fjárlögum sem er greiðsla til ríkissjóðs eða áður en Póstur og sími greiðir lífeyrissjóðsskuldbindingar sínar. Auðvitað verður Póstur og sími að standa skil á slíku og auðvitað er ekki hægt að tala um hreinan hagnað Pósts og síma áður en til slíks uppgjörs kemur.