Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:02:28 (3528)

1997-02-17 16:02:28# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:02]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst vel geta komið til álita og eðlilegt að skoða þá tillögu ráðherrans að framkvæmd sé fjármögnuð að öllu leyti með lánsfé sem síðan sé borgað á næstu fjórum árum eftir að framkvæmdinni lýkur. En mér finnst eðlilegt að framkvæmdin sé inni á vegáætlun. Mér finnst óeðlilegt annað en að framkvæmd sem á að ráðast í á næsta ári, sem ég tel í sjálfu sér þarfa og eðlilega og hef stutt að öðru leyti í þinginu fram til þessa, verði inni á vegáætlun. Ég tel óeðlilegt að framkvæmdin sé utan vegáætlunar. Þannig að ég vil setja fram það sjónarmið að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir í vegagerð við Hvalfjarðargöngin upp á 400 millj. kr. verði inni á vegáætlun jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að taka lán til að fjármagna þá framkvæmd.

Í öðru lagi skil ég svar ráðherra þannig að hann sé sammála því að þingmenn íhugi það að öðru leyti hvort aðrar brýnar framkvæmdir verði ekki fjármagnaðar með sama hætti, þannig að unnt verði að ráðast í þær á þessu ári eða næsta gegn því að lánsfjármagn fáist til þeirra sem síðar verði endurgreitt á vegáætlun á tímabilinu 1999--2008. Víða um land er knýjandi þörf á úrbótum í vegamálum og sums staðar hamlar það mjög eðlilegri byggðaþróun að á nauðsynlegum vegaframkvæmdum stendur. Það yrði því mikils metið og skipti miklu máli, eins og t.d. á Vestfjörðum, ef unnt yrði að ráðast í brýnar framkvæmdir á þessu ári eða næsta gegn því að þær yrðu greiddar á lengri tíma.