Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:05:39 (3530)

1997-02-17 16:05:39# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:05]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er ef til vill ástæða til í þessari fyrri umræðu um vegáætlun fyrir yfirstandandi ár og til ársins 2000 að fara nokkrum orðum um gildi og markmið ályktana af þessum toga. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að mjög mikið gagn sé af áætlun sem þessari þó ekki sé nema til fjögurra ára í senn. Ég get þar af leiðandi tekið undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Til viðbótar væri gagn að því að horfa til enn lengri tíma. Hins vegar er það óneitanlega galli á gjöf Njarðar að oftar en ekki eru þessar vegáætlanir lítið marktækar og taka mjög verulegum breytingum á áætlunartímabilinu. Það hefur nánast verið regla fremur en undantekning við afgreiðslu fjárlaga hvers árs að í þessa áætlunargerð hefur verið kroppað mismunandi mikið, allt eftir efnum og ástæðum og stefnumörkun ríkisstjórnar hverju sinni, eftir styrk viðkomandi samgrh. hverju sinni og baráttu hans við viðkomandi fjmrh. Allt hefur þetta verið með nokkrum höppum og glöppum. Það er auðvitað óþolandi þegar landsmenn og aðrir þeir sem vilja horfa til framtíðar og vilja reyna að taka mark á ályktunum þingsins og haga ýmsum öðrum undirbúningi með hliðsjón af því að þeir séu undir það búnir að á hverju hausti við gerð fjárlaga og afgreiðslu þeirra séu þessar sömu vegáætlanir um margt rifnar upp með rótum. Ég held að hér sé ekki eingöngu um að sakast við núv. ríkisstjórn. Mér finnst að fyrrv. ríkisstjórnir eigi þar nokkra sök á líka. Ég held að ástæða væri til að við hugsuðum okkar gang eilítið og gerðum bragarbót á.

Það vekur hins vegar athygli við þessa till. til þál. þegar tölur eru skoðaðar, hvað sem líður öllum skýringum, og ég held, virðulegi forseti, að það væri ráð að hæstv. ráðherra leggði við eyrun. Hér er auðvitað um að ræða stiglækkandi framlög, hæstv. samgrh. Ég fletti til gamans upp í ríkisreikningi ársins 1992 þar sem var að sönnu lág upphæð en síðan hefur verið myndarlegum fjármunum varið til vegagerðar. Árið 1993: 7 milljörðum og 557 millj. kr., 1994: 7 milljörðum og 356 millj., 1995: 7 milljörðum og 612 millj. kr. En síðan hrekkur þessi tala á síðasta ári niður í 6 milljarða og 663 millj. kr., með öðrum orðum niður um einn milljarð kr. eða þar um bil. Það er eins og allur vindur sé úr hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki. Aðeins er rétt úr kútnum á því ári sem nú er nýhafið og þessi upphæð er rétt rúmlega 7 milljarðar kr. Að vísu vekur það athygli og ég rakst á það að sú tala sem er að finna í þessari vegáætlun er ekki sama tala og er að finna í fjárlögum yfirstandandi árs. Þar munar um 25 millj. kr. og ég óska eftir skýringum á því. Fjárlagatalan er 7 milljarðar og 64 millj. kr. en talan hér í þessari þáltill. er upp á 7 milljarða og 89 millj. kr. og vafalaust getur ráðherrann gert grein fyrir þessu misræmi.

Ég fer hratt yfir sögu, virðulegur forseti. Hér er auðvitað ástæða til að drepa á margt því um viðurhlutamikið mál er að ræða sem kemur að öllu landinu og mjög mikilvægum málaflokki fyrir marga landsmenn, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það kveður við þann tón í þessari tillögu að nú sé allt í einu ekki lengur rætt um vegagerð sem arðbærar framkvæmdir. Þetta viðfangsefni er nálgast á þann hátt að ekki þurfi lengur á því að halda að fara í vegagerð til að halda úti atvinnu, atvinnubótavinnu. Það kemur mér nokkuð á óvart að menn skuli snúa þessu blaði við jafnsnögglega og raun ber vitni um. Nú er allt í einu hætt að tala um nauðsyn þess að tryggja samgöngur milli byggðarlaga, auka þar verslun og þjónustu, viðskipti og annað því um líkt eða draga úr slysahættu, einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu þar sem rammgerð mannvirki bíða þess að verða byggð til þess einmitt að tryggja öryggi borgaranna og raunar einnig úti á landi, heldur er þetta viðfangsefni nálgast þannig að ekkert megi gera á suðvesturhorninu því þar séu virkjunarframkvæmdir í gangi og það eigi að draga úr þenslu. Þetta finnst mér vond, ný tóntegund aukinheldur sem hún á ekki við nein rök að styðjast. Ég bið hæstv. ráðherra að gæta að því, og höfunda þessarar vegáætlunar, að nýjar tölur um atvinnuleysi sýna að atvinnuleysi er að finna hér á þessu svæði, en ekki úti um landið. Þar hefur sem betur fer dregið markvisst og örugglega úr því og vantar raunar vinnuafl en hér á þessu svæði er enn þá stöðugt atvinnuleysi. Þeir hinir sömu sem telja þúsundir verða ekki varir við þessa svokölluðu þenslu sem tíunduð er mjög rækilega í þessari vegáætlun. Það er gagnrýni vert.

Það er líka gersamlega óþolandi að stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi keyri í gegn tillögur við fjárlagagerð, tillögur á borð við þær að draga úr nýframkvæmdum upp á 222 millj., verja þeim til að greiða niður skuldir á flóabátum, bæði í Vestmannaeyjum og raunar á Snæfellsnesi, í Stykkishólmi, á Breiðafirðinum beggja vegna, fresta framkvæmdum eða hætta í miðju kafi öllu heldur við framkvæmdir í Ártúnsbrekkunni sem er hrein og klár slysagildra og stilla síðan sveitarfélaginu upp við vegg með þeim hætti að annaðhvort dragi það úr skólabyggingum og geti þá hugsanlega fengið að halda áfram með þessa brú eða að öðru leyti verði látið kyrrt liggja. Þetta sama er uppi á teningnum í Grindavík þar sem sveitarfélaginu var stillt upp við þann vegg að byggja höfn og fresta skóla eða láta kyrrt liggja. Ég vissi ekki til þess að hið háa Alþingi hefði gefið heimildir til þess gagnvart ríkisstjórninni, að hún gæti spilað svona úr kortunum eins og hún vildi í yfirstandandi samþykktum fjárlögum. Ég kannast ekki við þá heimild til hæstv. samgrh. eða ríkisstjórnarinnar í heild og rétt að hæstv. ráðherra upplýsi um það.

Virðulegi forseti. Það er ljóst að mikið verk er fyrir höndum í samgn. við að fara yfir þessi mál. Ég nefndi áðan ferjur, ég get nefnt það sem áður hefur verði nefnt í andsvari, Hvalfjarðargöngin. Ég get líka nefnt jarðgöngin og auðvitað er nauðsynlegt strax við fyrri umræðu þessa máls að hæstv. ráðherra fari nokkrum orðum um þanka sína og skýri yfirlýsingar sínar varðandi næstu stórverkefni á sviði jarðganga og þá á ég auðvitað við þá keppni sem upp er komin og hæstv. ráðherra hefur að sumu leyti ýtt undir varðandi jarðgangagerð annars vegar á Austurlandi og hins vegar í hans kjördæmi á Norðurl. e. Það er rétt að hann geri grein fyrir þeim viðhorfum sem hann hefur uppi í þeim efnum.