Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:14:14 (3531)

1997-02-17 16:14:14# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:14]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ ekki betur séð en það séu sömu niðurstöðutölur til Vegagerðar í fjárlögum eins og í till. til þál., 7 milljarðar 89 millj. kr. Ég veit ekki hvort þingið hefur kannski tvær útgáfur af fjárlögunum. Ég skal ekki um það segja. Þá lætur skjalavörður mér vonandi aðra útgáfu í té til athugunar við 2. umr. málsins.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að við höfum farið fram á það við borgarstjóra Reykjavíkurborgar að draga úr skólabyggingum ef til þess kynni að koma að ráðist yrði í Ártúnsbrekku þrátt fyrir þau sjónarmið ríkisstjórnarinnar að rétt sé að fresta framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirrar þenslu sem hér er í framkvæmdum. Það hefur ekki verið rætt um skólabyggingar í því sambandi. Hins vegar hefur samgrn. átt viðræður við borgarstjóra um þessi mál. Embættismenn borgarstjórnar, samgrn. og Vegagerðar hafa rætt saman og mun ég skýra ríkisstjórninni frá gangi þeirra viðræðna á morgun.

Um Grindavík er það að segja að bæjarstjórn Grindavíkur lagði mikla áherslu á nauðsyn þess að hægt væri að flýta dýpkun hafnarinnar þar. Það var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum að hægt yrði að ráðast í þá dýpkun, en vegna sérstöðu Grindavíkurhafnar lagði ég málið fyrir ríkisstjórn, hvort hún mundi fyrir sitt leyti fallast á að framkvæmdum við höfnina yrði flýtt gegn því að skólabyggingu yrði frestað. Um það var gott samkomulag á milli bæjarstjórnar Grindavíkur og samgrn. og á hvorugan hallað í því máli. Ég vona satt að segja að þingmenn Grindavíkur muni með glöðu geði standa á bak við þá ákvörðun.