Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:23:08 (3535)

1997-02-17 16:23:08# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., RA
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:23]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eftirtektarverðasta staðreyndin í þeirri vegáætlun fyrir árin 1997--2000 sem hér liggur fyrir til umræðu er sú að teknar eru 806 millj. kr. af mörkuðum tekjustofnum umferðarinnar í ríkissjóð. Þessi upphæð hefur farið vaxandi ár frá ári, mun hafa verið 630 millj. kr. á sl. ári og hefur aldrei verið hærri en á því ári sem nú fer í hönd.

Ég tek eftir því að hæstv. samgrh. reynir að afsaka þetta á þeim forsendum að það sé verið að greiða skuldir Vegasjóðs við ríkissjóð og þess vegna sé ekki um að ræða jafnmikla skerðingu og ella virtist vera við fyrstu sýn. En ég vek á því athygli að ríkissjóður hefur tekið lán hjá Vegasjóði æðimörg ár. Vegasjóður hefur svo tekið lán hjá ríkissjóði, en það er aldrei talað um nema aðra skuldina. Það er bara talað um skuldir Vegasjóðs við ríkissjóð en aldrei hið gagnstæða, skuldir ríkissjóðs við Vegasjóð. Þessi skuldajöfnun fer aldrei fram nema á annan veginn, það er verið að rukka Vegasjóð um skuldirnar við ríkissjóð en aldrei gerðar upp þær risastóru upphæðir sem ríkissjóður skuldar Vegasjóði frá liðnum árum.

Til nýrra þjóðvega á næsta ári eru ætlaðar 2.680 millj. kr. og ég vek á því athygli að ef ekki væri um þessa skerðingu að ræða, þá gætu framkvæmdir á árinu orðið 25--30% meiri en þær virðast eiga að verða. Hér er því ekki um neitt smámál að ræða. Ef við hefðum þetta fé sem nú á að greiða í ríkissjóð af mörkuðum tekjustofnum, þá væri hægt að auka vegaframkvæmdir um þriðjung til fjórðung eftir því hvernig reiknað er. Og ég vek á því athygli í þessu samhengi að ríkið hefur auðvitað geysilegar tekjur af umferðinni, af þeim 135 þúsund ökutækjum sem aka um vegi landsins og þessir mörkuðu tekjustofnar, sem við erum að ræða um og munu nema um 7.800 millj. kr., eru aðeins lítið brot af öllum raunverulegum tekjum ríkisins af umferðinni. Það eru aðeins hinir lögformlega mörkuðu tekjustofnar sem Vegasjóður á að fá, en hin upphæðin, raunverulegar tekjur ríkissjóðs af umferðinni eru auðvitað margfalt hærri. (Gripið fram í: 19 milljarðar.) Já, sennilega ekki fjarri 19 milljörðum kr.

Staðreyndin er auðvitað sú að ástand vega á Íslandi er afar bágborið og ég spyr hæstv. samgrh. svona í framhjáhlaupi hvort hann gæti bent mér á nokkurt ríki í þróuðu landi þar sem ástand vega er jafnbágborið og hér á Íslandi. Við erum að bera okkur saman við aðrar þjóðir á mörgum sviðum, menntamálum, félagsmálum og helbrigðismálum. En staðreyndin er sú að á engu einu sviði erum við jafnmikið og langt á eftir öðrum þjóðum og einmitt á sviði samgöngumála. Samgöngumálin skipta auðvitað feikilega miklu máli fyrir dreifðar byggðir landsins og núna þegar stóriðjuframkvæmdir eru að hefjast í miklum mæli á höfuðborgarsvæðinu með álveri í Straumsvík, hugsanlegu álveri á Grundartanga og hugsanlegri stækkun járnblendiverksmiðju, þá væri auðvitað sérstök ástæða til þess að auka vegaframkvæmdir á þeim svæðum sem ekki njóta stóriðjuframkvæmdanna. Með þessu er ég ekki að segja að framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu séu ekki bráðnauðsynlegar, þær eru það. Og ég vil eindregið hvetja til þess að veitt sé mikið fé til þess að bæta úr hinum ýmsu alvarlegu flöskuhálsum sem eru í vegakerfinu hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd sem allir hljóta að reka augun í. En ég tel hins vegar að forgangsmál hjá okkur sé að ljúka hringveginum, að ljúka öllum tengivegum til kaupstaða og þéttbýlisstaða á landinu og ljúka við að leggja bundið slitlag á allan hringveginn. Þetta tel ég að eigi að vera forgangsmál. Síðan er annað forgangsmál sem ég hef nefnt en vil enn minna á, það er það að einbreiðar brýr, sem eru mikil slysagildra, eiga að hverfa úr vegakerfinu.

Í þessu samhengi vil ég sérstaklega lýsa ánægju minni með framkvæmdir Vegagerðarinnar á því sviði. Þetta mál kom til umræðu í fyrravetur. Ég var með sérstaka fyrirspurn til hæstv. samgrh. um fjölda einbreiðra brúa og slys á einbreiðum brúm. Það kom í ljós að það voru 23 brýr á hringveginum þar sem höfðu orðið fleiri en tvö slys og sums staðar allt upp í 17 slys á fáum árum og þetta kom einnig til umræðu við gerð vegáætlunar. Það verður að segjast hæstv. ráðherra og Vegagerðinni til hróss að það var bersýnilega ákveðið að gera stórátak á þessu sviði til fækkunar einbreiðum brúm. Ég fagna því mjög og þakka fyrir það því þarna var vel að málum staðið. Og ég vænti þess fastlega að þessu verkefni verði áfram sinnt því að það var auðvitað ekki hægt nema rétt að byrja á þessu verkefni. Þarna er um að ræða framkvæmdir sem gætu kostað um einn milljarð en það ber að þakka fyrir það sem vel er gert.

Ég er hins vegar mjög ósáttur við það hvað fer lítið fé til almennra vegaframkvæmda. Ég tel að við verðum að stokka upp skiptingu vegafjár. Það er tekið allt of mikið út fyrir sviga. Það er ekki nema rétt um 25% af fé til vegaframkvæmda sem fer til almennra verkefna og almennra slitlaga. Þessi upphæð fer alltaf minnkandi ár frá ári vegna þess að það er alltaf meira og meira tekið út fyrir sviga til stórverkefnanna. Það tel ég að sé mjög slæm þróun vegna þess að þetta er ástæðan fyrir því hversu víða eru alvarleg göt í þjóðvegakerfi okkar hringinn í kringum landið. Úr þessu þarf að bæta og við þurfum að snúa við frá þeirri öfugþróun sem verið hefur að þessi almennu verk fái svo lítið fé sem raun ber vitni.