Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:31:46 (3536)

1997-02-17 16:31:46# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að gætilega verður að fara í að fjölga stórverkefnum og vil minna á að þau stórverkefni sem hafa verið tekin inn sérstaklega eftir að ég varð samgrh. lúta einmitt að almennri vegagerð á þeim stöðum þar sem mest þörf hefur verið. Þá er ég annars vegar að hugsa um Djúpveg og hins vegar um veginn yfir Hólsfjöll og Möðrudalsöræfi og raunar á Snæfellsnesi og einnig Búlandshöfða. En eins og ég sagði hér fyrr, tel ég að ekki sé svigrúm til þess nú á næstu árum að ráðast í ný jarðgöng sem auðvitað hlytu að taka fjármuni frá hinni almennu vegagerð. Ég held að þar verði ekki lengra gengið í bili.

Í annan stað vil ég aðeins ítreka það sem ég sagði áðan að Vegagerð og fjmrh. hafa verið að setja upp það dæmi hversu mikið fé við teljum að Vegasjóður skuldi ríkissjóði. Það má alltaf deila um það hversu langt skuli fara aftur í tímann í þeim efnum en ég tel hins vegar rétt að í nefndinni verði sú staða lögð fyrir þannig að þingmenn geti kynnt sér hvernig þau mál standa. Það er ekki alveg sama hvernig litið er á tölur. Hv. þm. talaði um að 806 millj. færu í ríkissjóð. Á móti koma auðvitað framlög úr ríkissjóði 350 millj kr. og ástæðulaust að fara í neitt pot í þeim efnum, en vegáætlunin ber auðvitað merki þess að ekki hefur verið svigrúm til að standa við fyrri markmið vegna þess að meiri áhersla hefur verið lögð á að koma endum saman í ríkisfjármálum.