Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:33:53 (3537)

1997-02-17 16:33:53# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:33]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að sjónarmið okkar hæstv. ráðherra séu kannski ekki svo mjög ólík hvað varðar að leggja áherslu á þessi almennu verkefni og að koma slitlagi á hringveginn. Ég skil einmitt málflutning hans á þennan veg og því ber að fagna. En ég get hins vegar ekki komist hjá því að spyrja hann hvort það sé ekki rétt sem mér sýnist í fljótu bragði, að þessi almennu verk og þau almennu slitlagsverkefni sem fá 539 millj. kr. á komandi ári fái í raun hlutfallslega minna en nokkru sinni fyrr eða í kringum 25%. Ég reikna þetta þannig að það séu 539 millj. af 2.197 sem þessi verkefni fá eða um 25% og það tel ég ekki vera nógu gott. Mér sýnist að þróunin í þessum efnum sé ekki nógu hagstæð þrátt fyrir góðan vilja ráðherrans að öðru leyti.

Loks vildi ég fá að nota tækifærið til að spyrja ráðherrann hvernig verði hagað þeim verkefnum sem ég nefndi áðan um einbreiðar brýr og þær gerðar tvíbreiðar, og hvenær þeim verkefnum yrði lokið. Hvernig standa þau mál? Hvað verður lagt mikið í þau verkefni á næsta ári? Það kemur ekki fram í vegáætlun eins og hún liggur fyrir. Þetta er hins vegar mikið áhugamál mitt og margra annarra. Það eru afar margar brýr af þessu tagi í mínu kjördæmi og mér er persónulega kunnugt um hversu gífurlega mikill slysavaldur þessar brýr eru og því væri gott ef hæstv. ráðherra vildi víkja aðeins nánar að þessu atriði.