Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:38:15 (3539)

1997-02-17 16:38:15# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:38]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil það svo að um 140 millj. kr. verði þá varið til að gera einbreiðar brýr tvíbreiðar og það eru þá 62 millj. undir liðnum Öryggisaðgerðir og síðan einhverjar aðrar 78 millj. sem bætast þar við. Þetta er vissulega góðra gjalda vert og þakkarvert og framför frá því sem verið hefur. Maður getur hins vegar velt því fyrir sér hvort þessi upphæð þyrfti ekki að vera hærri. Mér skilst að þegar menn horfðu á þetta verkefni fyrir einu ári síðan, þá hefðu menn talið að þarna væri um verkefni upp á 1 milljarð að ræða. Ég held að skoða þyrfti það aðeins nánar í nefndinni hvort því verkefni miðar ekki of seint áfram með því að veita 140 millj. kr. á ári til þess.

Hvað varðar almennu verkefnin og bundin slitlög þá nefndi hæstv. ráðherra að til Skeiðarársands færu 250 millj. kr. Í raun og veru má segja að það verkefni sé öllu heldur viðhaldsverkefni en til nýrra þjóðvega. Þarna er verið að bæta úr því sem illa hefur farið og spurning hvort þetta mál hefði ekki átt að taka alveg út fyrir sviga og útvega alveg sérstakt fé í það þannig að það þyrfti ekki að koma niður á öðrum vegaframkvæmdum eins og sakir standa. En auðvitað gefst betra tóm og tækifæri til að skoða þau mál nánar í nefnd.