Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:49:24 (3541)

1997-02-17 16:49:24# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því hv. þm. Sturla Böðvarsson gerði það að umtalsefni að skoða yrði framlög til vegamála í samhengi og í heild og horfa yrði til nokkurra ára og er ég honum sammála um það, þá gerði ég eilitla könnun meðan hann talaði og athugaði þessa sömu blaðsíðu fjárlagafrv. og skoðaði mér til gamans hvernig niðurstöðutalan verður hjá hæstv. samgrh. þau átta ár sem hann verður væntanlega við stjórnvölinn. Þannig er að hæstv. samgrh. verður mínusmegin. (Samgrh.: Það er þá ekki í fyrsta skipti.) Hann verður mínusmegin upp á um 25 millj. kr. Það er að vísu ekki mikill mismunur á en engu að síður er það eftirtektarvert að honum tekst ekki að ráða við þetta þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn með Alþfl., sem ýtti honum áfram í vegamálum. Það er auðvitað eftirtektarvert í þessu öllu saman þegar þessar tölur er skoðaðar í samhengi. Ég held að hv. þm. Sturla Böðvarsson hljóti að deila þeim skoðunum með mér að það fer ekki að halla undan fæti fyrr en hv. framsóknarmenn koma til sögunnar. Þá fer þessi mismunur að vera mjög í mínus. Þannig er talan plúsmegin upp á 1.300 millj. kr. til að mynda 1993, plús upp á milljarð 1994 en árið 1996 byrjar þetta allt saman að snúast til verri vegar. Og það er rétt að hv. þm. Magnús Stefánsson og Stefán Guðmundsson, landsbyggðarþingmenn Framsfl., átti sig á því að með þeirra tilkomu í ríkisstjórn fer að halla undan fæti og hæstv. samgrh. hættir að ráða við nokkurn skapaðan hlut hvað varðar eðlileg og myndarleg framlög til vegamála og gæti nú komið mörgum á óvart.