Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:08:30 (3549)

1997-02-17 17:08:30# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:08]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Við erum að fjalla um vegáætlun fyrir árin 1997--2000. Vegamálin eru eitt helsta hagsmunamál landsmanna og þá ekki síst úti á landsbyggðinni. Ég hef verið og er þeirrar skoðunar að vegamálin og bættar samgöngur séu grundvallarbyggðamál og ekki síst er um að ræða góða fjárfestingu, og það má rökstyðja á ýmsan hátt.

Sú tillaga sem liggur fyrir fjallar um fjáröflun og skiptingu útgjalda eftir verkþáttum fyrir þetta tímabil en ekki um skiptingu eftir einstökum framkvæmdum í kjördæmum landsins. Um það verður fjallað í þingmannahópum kjördæmanna og í samgn. En í áætluninni er gert ráð fyrir svipuðum fjárveitingum allt áætlunartímabilið. En það er ljóst að mun meira þarf til ef við ætlum að ná ásættanlegum árangri í uppbyggingu vegakerfisins á næstu árum. Ég ber þá von í brjósti að meira fjármagn fáist til þessara hluta jafnvel á síðari hluta áætlunartímabilsins. En eins og hv. þm. vita miða ráðstafanir í ríkisfjármálum að því að reka ríkissjóð hallalausan. Það hefur komið fram og er staðreynd að vegamálin þurfa að taka á sig ákveðinn hluta.

Í athugasemdum með vegáætlun er sérstaklega fjallað um ýmsa þætti sem ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða mikið að þessu sinni. Þó langar mig að nefna hið sérstaka framkvæmdaátak í vegagerð sem var ákveðið af þáv. ríkisstjórn árið 1994 og er út af fyrir sig mjög gott mál að slíkt skuli gert. En með þessu framkvæmdaátaki var að hluta til horfið frá þeirri aðferð sem notuð hefur verið til að skipta fjármagni eftir kjördæmum og var þess í stað tekin upp sú aðferð að skipta fjármagni eftir íbúafjölda í kjördæmum.

Um þetta framkvæmdaátak og skiptingu fjármagns má segja að á nokkurn hátt hafi verið farið út í sértækar aðgerðir í vegaframkvæmdum í fjölmennustu kjördæmunum og þá á kostnað hinna fámennari. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að framkvæmdaátakið nái allt til aldamóta og fjárveitingar eru miðaðar við það. Þrátt fyrir þessi orð er ég ekki að gera lítið úr þörfinni fyrir vegagerð í þéttbýlustu kjördæmum landsins. Þar er þörfin að sjálfsögðu jafnmikil og annars staðar vegna hinnar miklu umferðar sem fylgir fjölmenninu. En ég vildi halda þessu til haga og vekja athygli á þeirri staðreynd um breytingar sem eru gerðar á úthlutun fjármagnsins.

Í tengslum við þá vegáætlun sem er til umfjöllunar þykir mér rétt að koma á framfæri þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að skilgreina nánar samhengi samgöngumála í lofti, láði og legi út frá nauðsynlegum framkvæmdum til að bæta samgöngur, sem er eins og ég hef sagt grundvallaratriði fyrir okkar þjóð, byggð og búsetu í öllu landinu. Ég er þeirrar skoðunar að okkur sé mjög nauðsynlegt að skoða þessa hluti alla í samhengi og stilla upp samræmdri áætlun á þessum sviðum samgöngumála, um mannvirkjagerð og uppbyggingu samgöngukerfisins. Það hafa orðið miklar breytingar og þróun í samgöngu- og flutningamynstri þjóðarinnar þar sem umferð og flutningar á landi verða sífellt meiri og því eykst stöðugt mikilvægi samgöngukerfisins á landi og jafnframt þörfin fyrir uppbyggða vegi sem geta borið þessa síauknu og þungu umferð. Umfjöllun um þetta kemur m.a. fram í grg. með þáltill.

Með vegáætlun er m.a. verið að fjalla um vegaframkvæmdir. Í annarri áætlun er fjallað um framkvæmdir er varða flugsamgöngur og þessar áætlanir hafa báðar hlotið afgreiðslu Alþingis mörg undanfarin ár. Síðan er á öðrum vettvangi fjallað um áætlaðar hafnarframkvæmdir en eins og Ríkisendurskoðun hefur bent á hefur slík áætlun ekki hlotið afgreiðslu Alþingis í langan tíma. Ég tel að lítið samhengi sé milli þessara áætlana þar sem ekki er dregin upp heildstæð mynd af þessum málum yfir landið í heild. Sem dæmi má nefna að varðandi hafnaáætlun hefur framkvæmdum verið hagað á þann hátt að nú stendur ríkissjóður í skuld við sveitarfélög og hafnir í landinu sem nemur yfir 700 millj. kr. En gera má ráð fyrir að árs fjárveitingar til hafnaframkvæmda geti numið nálægt 600 millj. kr. Það er ljóst að vegna mismunandi þarfa eftir kjördæmum þá er töluverð misskipting í fjárveitingum til framkvæmda í hafna- og flugmálum milli landsvæða og það er ekki óeðlilegt. Þannig er ljóst að kjördæmi landsins eru misjafnlega sett er varðar framkvæmdir í samgöngumálum almennt. Einnig er ljóst að mikilvægi hafna vegna vöruflutninga hefur breyst víða og þeir flutningar færst af sjó og á þjóðvegina sem víðast hvar eru á engan hátt undir það búnir að taka við slíkri umferð. Á sama hátt hefur mikilvægi sumra flugvalla í fólksflutningum breyst m.a. vegna betri vega og styttingu vegalengda. Þannig hafa þessir fólksflutningar færst úr lofti á þjóðvegina í nokkrum mæli.

Með samræmdri áætlun í þessum efnum má betur jafna hlut kjördæmanna er varðar fjárveitingar til framkvæmda og taka tillit til þeirra þátta sem ég hef nefnt. Alþingi fjallaði um slíkar samræmdar áætlanir 1989 og var þáltill. sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri fluttu vísað til ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Lítið eða ekkert hefur borið á því að unnið hafi verið eftir þessu en ég tel fulla ástæðu til að unnið verði að því að slík áætlun verði gerð.

[17:15]

Herra forseti. Mikið og margt hefur áunnist í uppbyggingu vegakerfisins á undanförnum árum, en mér er nokkur harmur í brjósti að ekki skuli vera meira fjármagn til vegaframkvæmda, þar sem mikil þörf er víða. Ég hef komið inn á skýringu á því af hverju svo er að þessu sinni. Ég vil vekja athygli á að ég tel mikilvægt og nauðsynlegt að efla áætlanagerð og þá til lengri tíma og tek undir orð sem hér hafa fallið um langtímaáætlun í vegamálum.

Örlítið hefur verið minnst á stórverkefnasjóð í tengslum við vegtengingarframkvæmdir við Hvalfjarðargöng og ég vil að lokum koma skoðun minni á framfæri og vísa til þess að það hefur verið gengið út frá því í umræðum, m.a. sveitarstjórnarmanna á Vesturlandi, að stórverkefnasjóður komi að þessu verkefni. Og ég vil einnig rifja það upp að í umræðum hér, að ég hygg snemma árs 1995, kom m.a. fram í máli hæstv. samgrh. að stórverkefnasjóður komi að þessu verkefni og ég tel að það sé mjög mikilvægt og grundvallaratriði að málum verði hagað þannig að stórverkefnasjóður taki stærstan hluta þessara framkvæmda á sínar hendur.

Ég mun síðan að sjálfsögðu vinna að framgangi þessarar áætlunar í hv. samgn. og mun koma frekar að þessu máli á þeim vettvangi.