Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:22:43 (3557)

1997-02-17 17:22:43# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það verður að segjast að það stendur ekki steinn yfir steini í gildandi vegáætlun sem samþykkt var fyrir tímabilið 1995--1998. Bara fyrir árið í ár átti samkvæmt gildandi vegáætlun heildarfjármagn til vegagerðar á landinu að vera 7 milljarðar 555 millj. Með þeirri tillögu sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir tæplega hálfs milljarðs niðurskurði og lagt til að það verði 7 milljarðar 89 millj. þannig að þarna vantar tæplega hálfan milljarð upp á. Í andsvari sagði ég að ég tel óviðunandi þegar samþykktum vegáætlunum eins og hér eru gildandi er kollvarpað á þennan hátt.

Tæknilegir gallar víða á samgöngukerfinu eru mjög alvarlegir og þeir geta verið verulegir slysavaldar. Ég nefni sem dæmi einbreiðar brýr sem hafa verið hér til umræðu og framkvæmdir sem verður að stöðva í miðjum klíðum. Þess vegna tel ég varasamt að draga úr framkvæmdum. Ég vil minna á að kostnaður vegna slysa og tjóna í umferðinni er upp á 16 milljarða kr. samkvæmt skýrslu frá Háskóla Íslands.

Ég vil aðeins byrja á því að minnast á höfuðborgarsvæðið. Ég held að það sé samdóma álit þeirra sem til þekkja að brýn þörf sé á sérstöku átaki í uppbyggingu þjóðvegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu, bæði til þess að fækka slysum, árekstrum og öðrum óhöppum í umferðinni. Yfirfullt umferðarkerfi eins og er hér víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu getur bitnað á íbúum sérstaklega og einnig atvinnurekendum. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa metið þörfina fyrir framkvæmdir og þar hefur verið miðað við að það þurfi 1.300 millj. kr. árlega og það hefur þurft um alllangt skeið ef vel á að vera. En tillagan um vegáætlun er um helmingurinn af þessari upphæð, eða 650--675 millj. til framkvæmda, og það er allt of lág upphæð til þess að ekki hljótist verra af og ástand umferðarinnar versni. Ég vil lýsa áhyggjum mínum af því að ekki skuli koma frekari fjárveitingar í þetta. Ef þetta á að standa hér á höfuðborgarsvæðinu, þá verða framkvæmdirnar á tímabilinu 1997 til ársins 2000 aðeins helmingurinn af þeim verkefnum sem sveitarfélögin hafa talið eðlileg á þessu tímabili. Það mun t.d. seinka breikkun á Gullinbrú sem hefur verið vegartálmi á mikilli umferð úr Grafarvoginum og niður í bæinn. Sú breikkun mun þurfa að bíða til ársins 2000 en hún var áætluð árið 1998. Mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Skeiðarvogs munu ekki koma til framkvæmda fyrr en árið 1999 og þar verður umferðin mjög slæm og erfið. Gatnamót Breiðholtsbrautar við Reykjanesbraut, sem þegar eru fullnýtt og lagt var til að yrðu gerð mislæg árið 1999, detta líklega út úr áætluninni á þessu tímabili. Höfuðborgarsvæðið hefur þurft að búa við mjög óstöðugt ástand í fjárveitingum til uppbyggingar á samgöngumannvirkjum, þ.e. að því leyti sem snýr að ríkisvaldinu. Þar hafa skipst á niðurskurður og svo átaksverkefni. Nú í ár þurfum við hér á svæðinu að búa við mikinn niðurskurð og einnig í fyrra. Og ég tek undir með borgarstjóranum í Reykjavík sem hefur oft lýst því yfir að þau vinnubrögð af hálfu ríkisvaldsins í fjárveitingum til vegamála að skera niður og vera með átaksverkefni til skiptis sé eins og að stíga á bremsuna og bensínið til skiptist, það séu vinnubrögð sem eigi ekki að líðast. Það þætti ekki gott aksturslag ef menn stigju á bremsuna og bensínið til skiptis.

Nú á að bremsa skarpt og harkalega hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar er verið að skera niður fjárveitingar um 222 millj. kr. til að sporna við þenslu og við það stöðvast framkvæmdir við samgöngumannvirki. Þar vil ég nefna sérstaklega við Ártúnsbrekkuna. Vegfarendur munu þurfa að búa áfram við þann flöskuháls sem myndast iðulega neðst í brekkunni þar og á brúnni yfir Sæbraut. Af því að í vegáætlun er talað um þenslu, þá vil ég benda á það að í bréfi sem borgarstjórinn í Reykjavík sendi samgn. 18. desember sl. kemur fram að það eru engin merki um þensluástand í Reykjavík, og þar lýsir borgarráð yfir verulegum áhyggjum af atvinnuástandinu í Reykjavík núna í vetur og vor. Ég tek undir þær áhyggjur því að það er ljóst af þeim tölum sem liggja fyrir um atvinnuleysi að helmingur af öllum atvinnulausum á landinu er í Reykjavík.

Eins og fram hefur komið í umræðunum, þá hefur borgarstjórinn í Reykjavík engu að síður lýst því yfir að hún sé tilbúin til að draga úr öðrum framkvæmdum til þess að bregðast við þessu ástandi ef það kemur upp. Og samgrh. kom inn á það hér í máli sínu áðan að hann væri í viðræðum við borgarstjóra. Ég veit til þess að borgarstjóri hefur lagt til að í stað þess að stöðva framkvæmdirnar við Vesturlandsveg í framhaldi af Ártúnsbrekku, þá hefur hún óskað eftir 300 millj. kr. viðbót til vegagerðar árið 1997 gegn því að draga saman framkvæmdir annars staðar, og þá hjá veitunum, aðallega hitaveitunni. Ég vil gjarnan fá að heyra það hjá samgrh. hvort það er rétt, hvort hann sé tilbúinn að bregðast við því því ég tel það mjög alvarlegt ef það á að stöðva framkvæmdirnar í Ártúnsbrekku eina ferðina enn. Frestun þar mun auka verulega slysahættu og við vitum það öll og menn eru sammála um að framkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu í samgöngumálum eru með arðsömustu framkvæmdum á landinu við samgöngugerð.

[17:30]

Ég get nefnt það sem dæmi að reiknað hefur verið út hjá borgarverkfræðingi að bara arðsemin við framkvæmdirnar á Miklubraut, sem menn hafa nú áhyggjur af að muni tefjast eitthvað út af þessum niðurskurði, er metin á um 20--40% eftir því hvaða lausn er valin. Það sama má segja um fleiri framkvæmdir. Ef ég nefni t.d. framkvæmdirnar við að breikka Gullinbrú, þá hefur það verið reiknað út um 63%.

Því miður er tíma mínum lokið en ég hef ekki nema rétt hafið mál mitt um þá vegáætlun sem bitnar illa á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem það kemur auðvitað niður á vegagerð annars staðar á landinu. En ég mun taka til máls aftur um þetta mál.