Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:39:21 (3562)

1997-02-17 17:39:21# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:39]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði áðan í ræðu sinni að gatnamót Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar mundu hugsanlega detta út í framkvæmdum næsta árs vegna niðurskurðar til vegamála. Ég held að þetta hljóti að vera á misskilningi byggt hjá hv. þm. vegna þess að samkvæmt því samkomulagi sem meiri hlutinn gerði. Þegar fjárlögin voru afgreidd fyrir jólin var það sett í vald sveitarstjórnanna hvaða framkvæmdir yrði farið í fyrir þá fjármuni sem menn mundu semja um til að mæta annars vegar framkvæmdum til vegamála og hins vegar til að skera niður framkvæmdir á vegum sveitarfélaga til að mæta þessum þensluáhrifum. Tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Breiðholtsbraut að Fífuhvammsvegi var inni í þeirri mynd og var hugmyndin að byrjunin, 100 millj. kr., mundi fara til þeirra framkvæmda. Síðan var Ártúnsbrekkan að sjálfsögðu inni í þeirri umræðu einnig. Fleiri mál voru til umræðu þegar verið var að ræða þensluáhrif og niðurskurð sveitarfélaga á móti þessum framkvæmdum. Þar má nefna höfnina í Grindavík þar sem gert var ráð fyrir yfir 100 millj. kr. framkvæmd til að laga innsiglinguna í höfnina og skólaframkvæmdir í Grindavík færu út á móti. Allt þetta er gert til að mæta brýnni þörf. Ég hef fagnað því sérstaklega hvað hæstv. samgrh. hefur tekið vel í þessi mál og komið til móts við sveitarfélögin, til móts við brýn verkefni og ég held að ekki sé hægt að álasa honum fyrir að hafa ekki gert það sem hægt var. Ef menn líta á þær framkvæmdir sem hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og um land allt þá hefur þar svo sannarlega verið tekið til hendinni.