Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:51:59 (3567)

1997-02-17 17:51:59# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:51]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þáltill. um vegamál er að sjálfsögðu alltaf stórviðburður í þinginu. Þar er fjallað um einn viðamesta þátt í störfum þingsins og þann sem hefur mest áhrif um allt land þegar um er að ræða að halda uppi byggð í landinu og halda uppi atvinnu um allt land. Það er því ekki nema von að menn deili um það hvernig þeim fjármunum er úthlutað sem til eru á hverjum tíma.

Eins og hefur komið fram finnst mörgum sem eiga heima og eru talsmenn landsbyggðarinnar að ekki sé horft nægjanlega til þess hluta landsins sem er hvað afskekktastur. Ég get að mörgu leyti tekið undir það að hinar dreifðu byggðir, sumar hverjar, líða verulega fyrir það hversu hægt hefur gengið að koma á eðlilegu vegasambandi til þeirra. Þar held ég megi fyrst og fremst taka Vestfirði sem ég held að séu ekki hvað síst að láta undan og missa fólk frá sér vegna þess hversu erfitt er, þó svo að samgöngur séu þangað, að komast á þetta svæði vegna þess að vegirnir sem þangað liggja eru að mínu mati óakandi marga mánuði ársins. Ég fer reyndar á þessar slóðir tvisvar sinnum á hverju ári og læt mig ekki muna um það en ég þekki marga sem hafa reynt einu sinni og segjast ekki fara aftur fyrr en búið er að laga þessa vegi. Þetta eru bara staðreyndir sem við þekkjum öll og við vitum að þessu þarf að kippa í liðinn og það sem allra fyrst. Ég hef álitið að ekki sé síður mikilvægt verkefni og stórt að hinar svokölluðu ó-vegaáætlanir sem gerðar voru hér á árum áður og lyftu miklu grettistaki í bættum samgöngum á ákveðnum svæðum sem við þekkjum ættu nú við.

Það verður samt að segja þá sögu eins og hún er að þingmenn í hverju kjördæmi ráða því hvernig forgangsröðunin er. Auðvitað hefur á Vestfjörðum sem annars staðar verið gert gríðarlega mikið átak eins og í gangagerð og tengingu á milli byggða á ákveðnum svæðum. Það er fyrst og fremst að komast til þéttbýlisins á suðvesturhorninu sem hefur staðið í veginum fyrir því, að mínu mati, að eðlileg byggð haldist á þessum svæðum. Vegagerð í þéttbýlinu er ekkert síður mikilvæg. Þar er náttúrlega lífæðin, getum við sagt, þar sem 70% þjóðarinnar eru saman komin. Þar hefur þó verið reynt að halda í við framkvæmdir til að geta mætt því að halda uppi eðlilegum framkvæmdum úti á landi en tekið á þeim öðru hvoru með svokölluðum stórframkvæmdaráætlunum, sem hefur síðan verið kippt úr lið öðru hvoru.

Það er löngu ljóst að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Breiðholti til Hafnarfjarðar er mjög brýnt verkefni og umferðin þar er orðin svo hæg að fólk er í rauninni farið að fara aðrar leiðir og lengri til að komast með eðlilegum hraða til vinnu sinnar á umferðarþyngstu tímum sólarhringsins. Margar aðrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu hafa beðið eins og tvöföldun Vesturlandsvegar upp í Mosfellsbæ og framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar til Reykjanesbæjar sem hefur margoft verið til umræðu á þinginu og við vitum öll að er ein af þeim framkvæmdum sem hljóta að vera forgangsverkefni. En auðvitað er öllum ljóst að við förum ekki í þessar framkvæmdir nema hafa til þess fjármagn og það er sorglegt til þess að vita að við höfum þurft að skera svo niður vegáætlanir að þessi brýnu verkefni hafa setið á hakanum. Ég vonast til að með þeirri breytingu sem hefur orðið á fjárlögum á þessu kjörtímabili sérstaklega, að við erum farin að reka ríkissjóð hallalausan, geti orðið til þess að vegafé geti runnið óskipt til vegamála hér eftir, þannig að við eigum ekki að þurfa að horfa upp á það að hundruð milljóna fari til þess að rétta af halla ríkissjóðs. Það er í rauninni ekki hægt þegar við lítum á allar þær framkvæmdir sem svo brýnar eru.

Mig langar til að beina einni fyrirspurn til hæstv. samgrh. sem var í rauninni ástæða mín fyrir að koma hér upp, þó svo að engin ástæða sé til að draga úr mikilvægi þess að taka þátt í umræðunni því hún er mjög mikilvæg. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hafi verið staðið að viðræðum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þau verkefni sem leyfilegt yrði að fara í á þessu ári umfram vegáætlun gegn því að sveitarfélögin mundu draga úr framkvæmdum á móti. Eftir því sem mér heyrist í umræðunni hefur einungis verið talað við borgarstjórnina í Reykjavík en ekki við nein sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. En samkvæmt því samkomulagi sem um var rætt fyrir áramótin í tengslum við samþykkt fjárlaga, þá var ætlunin að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu yrðu inni í þessari umræðu. Þá var einnig gert ráð fyrir því að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Breiðholti til Fífuhvammsvegar yrði önnur sú framkvæmd sem yrði til umræðu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en ekki eingöngu Ártúnsbrekkan. Þannig að mig langar að fá svör við því frá hæstv. samgrh. hvernig þessar viðræður hafa farið fram, hverjir hafa komið að þeim og hverjir hafa verið boðaðir.