Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 17:59:29 (3568)

1997-02-17 17:59:29# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[17:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einkar athygli vert að hlusta hér á suma stjórnarliða. Maður gæti haldið, ef maður vissi ekki betur, að hv. þm. Kristján Pálsson væri í fyrsta lagi ekki stuðningsmaður þessarar stjórnar og í öðru lagi að hann hefði ekki komið nálægt afgreiðslu fjárlaga í desembermánuði sl. Hann lætur hér í veðri vaka að þær ákvarðanir sem hann tók þátt í og greiddi atkvæði með ættu síðan að fara í einhverja almenna umræðu við sveitarstjórnarmenn um útfærslu á. Það voru hreinar og beinar tillögur um það að halda inni tilteknum verkefnum á borð við Ártúnsbrekku. Og það voru hugmyndir og tillögur um að halda inni fjármagni til þess að tvöfalda Reykjanesbrautina en hv. þm. greiddi atkvæði gegn þeim. Það þýðir auðvitað ekkert að koma nokkrum mánuðum síðar og ræða um það að menn hefðu haft uppi einhver áform og eitthvert samkomulag um að eiga orðastað við sveitarfélögin um að þau frestuðu einhverju og fengju hugsanlega inn þessi verkefni sem hann sjálfur greiddi atkvæði gegn í desembermánuði. Þetta er auðvitað slíkur kattarþvottur og hundakúnstir að engu tali tekur og auðvitað ekkert mark á takandi. Og ég spyr: Hvaða samkomulag er það sem hann er að vísa hér til? Mér er ekki kunnugt um að það samkomulag hafi verið gert í samgn. a.m.k. Og ekki í almennum umræðum á hinu háa Alþingi. Þannig að hér eru menn auðvitað að reyna að komast úr þröngri stöðu með einhvers konar kattarklóri og yfirbreiðslu og bera af sér sakir sem þeir eiga fullkomlega að standa undir. Því hv. þm. greiddi atkvæði með fjárlögunum eins og þau eru í dag og þar með eru ekki inni verkefni á borð við Ártúnsbrekku, tvöföldun Reykjanesbrautar, og það sem meira er, hann tók undir það að allt væri á fljúgandi ferð á suðvesturhorninu og að draga þyrfti úr framkvæmdum. Skýri hann þau mál fyrir atvinnulausum á þessu svæði.