Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:13:29 (3577)

1997-02-17 18:13:29# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi einmitt hitt naglann á höfuðið sem er meginatriði þessa máls að við fjárlagaafgreiðslunar í desember sl. var tekin pólitísk ákvörðun um að stórlækka framlög til vegamála hér á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf auðvitað ekki að koma nokkrum manni á óvart þó að svona horfi fyrir með mikilvægar framkvæmdir á borð við Reykjanesbraut og Ártúnsbrekku. Ég sé og heyri á hæstv. ráðherra að það kemur honum ekkert á óvart því hann stóð fyrir tillögugerð í þá veru. Jafngagnrýnivert er það hins vegar.

Ég hlýt að árétta það sem ég sagði hér fyrr í dag af þessu tilefni og velta því fyrir mér, þó að ég sé maður mikils og góðs samráðs við sveitarstjórnir í landinu, hvers kyns uppboðsmarkaður þetta sé eiginlega að verða. Hefur hið háa Alþingi gefið hæstv. samgrh. heimildir til þess að gera býtti um alla skapaða hluti við sveitarfélög? Höfn á móti skóla, vegur á móti heilsugæslu, eða hvaðeina. Ég spyr, virðulegi forseti, er eitthvað skrifað í fjárlögum þessa árs sem opnar fyrir slíkar heimildir? Veit ég þó vel af yfirlýsingum hans um að sýna lipurð og sveigjanleika ef einhver vill við hann tala. En ég hlýt að gefnu tilefni að spyrja um þetta. Er með öðrum orðum ráð fyrir því gert og hann verði tilbúinn til að eiga orðastað við hvert það sveitarfélag sem til hans vill leita um það að fara á svona býttimarkað, fara í svona ,,Kolaport`` og skiptast á verkefnum? Ég spyr líka að gefnu tilefni, er þá verið að ræða það að sveitarfélögin dragi skilyrðislaust úr eigin framkvæmdum og fái hækkað ríkisframlag eða er verið að skipta á ríkisframlögum frá einu ríkisframlagi til annars til skólabygginga til að mynda? Það er nauðsynlegt að þetta komi fram til að sveitarfélögin átti sig á því, virðulegi forseti, við hvaða borð þau sitja.