Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:15:57 (3578)

1997-02-17 18:15:57# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:15]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú alltaf gott og gaman að eiga orðaskipti við hv. þm. Það er ekki rétt hjá honum að niðurskurður á höfuðborgarsvæðinu, ef við horfum á þau fimm ár sem framkvæmdatímabilið stendur yfir, sé meiri en á landsvísu. Það er rangt munað hjá hv. þm. En á hinn bóginn er framkvæmdum öðruvísi raðað í tíma. Ég hygg að rétt sé að það komi fram sem ég gleymdi að geta um áðan að það hafa fleiri sveitarstjórnarmenn en borgarstjóri átt fundi með mér í sambandi við vegaframkvæmdir og ég hygg að rétt mat sé hjá mér að menn telji að skynsamlegt sé að láta Ártúnsbrekku sitja fyrir ef í nýja framkvæmd verður ráðist vegna þess að þá erum við að tala um að ljúka miklu verki. Fram hjá því verður ekki horft að við erum að skera almennar vegaframkvæmdir niður um 18--20%. En ef við lítum á framkvæmdaátakið sérstaklega þá var gert ráð fyrir að framkvæmdir yrðu á fimm árum en ekki fjórum eins og upphaflega hafði verið reiknað með. Þannig að sá hluti framkvæmda á Reykjavíkursvæðinu sem fellur undir almennar vegaframkvæmdir er skorinn niður um 20% á þessum tveimur árum. Skuldagreiðslan til Reykjavíkur er auðvitað eftir sem áður vegna þess að ekki er hægt að skera niður greiðslur af skuldabréfi. Það er augljóst og það skilja menn jafnvel þótt úr Hafnarfirði séu. Sá hlutinn sem lýtur að framkvæmdaátakinu verður sem sé gerður á fimm árum í staðinn fyrir fjórum.