Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:23:14 (3581)

1997-02-17 18:23:14# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram um vegáætlun ætla ég ekki að fara að kýta um það við hv. þm. Kristján Pálsson hvaða framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu séu mikilvægastar, hvort það er tvöföldun Reykjanesbrautar eða að klára framkvæmdir við Ártúnsbrekku. Ég vil benda hv. þm. á að sú framkvæmd sem nefnd hefur verið í Ártúnsbrekku hefur verið stöðvuð í miðjum klíðum þannig að talið er að hún feli í sér slysahættu eins og hún hefur verið skilin eftir hálfunnin. Ég held að það sé atriði sem þurfi að líta til. En ég held að nauðsynlegt sé í þessari umræðu að halda til haga niðurskurðinum í vegamálum því það er greinilegt að einhverjir hv. stjórnarþingmenn hafa ekki gert sér grein fyrir hvað þeir voru að samþykkja við fjárlagagerðina.

Í þessari tillögu sem liggur fyrir, og ef maður tekur aðeins árið í ár, þá eru nýframkvæmdir á þjóðvegum landsins skornar niður um 640 millj. kr. eða um 30%, úr 2.766 millj. í 1.947 millj. kr. Í gildandi vegáætlun er gert ráð fyrir 753 millj. í bundin slitlög á þessu ári. Sú upphæð lækkar í 539 millj. eða um 214 millj. kr. Nýframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu lækka úr 557 millj. í 374 millj. eða um 183 millj. kr. Stórverkefnin sem eru ætluð til jarðganga, stórbrúa eða fjarðarþverana, eins og segir í tillögunni, og áfanga á hringvegi milli kjördæma og tengingar þéttbýlisstaða í eitt atvinnu- og þjónustusvæði, eru skorin úr 702 millj. niður í 512 millj. eða um 190 millj. kr. Svo ég komi nú að framkvæmdaátakinu, sem hefur verið til umræðu í dag, og ríkisstjórnin ákvað að ráðist yrði í í vegagerð þá átti það fá 774 millj. kr. samkvæmt gildandi vegáætlun en er skorið niður um 257 millj. og verður 517 millj. kr. En eins og menn þekkja er framkvæmdaátaksfénu skipt niður á kjördæmi eftir íbúafjölda en höfuðborgarsvæðið er skoðað sem eitt svæði þó það sé í tveimur kjördæmum. Ég endurtek að þarna er og verður niðurskurðurinn tilfinnanlegastur.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að pólitísk ákvörðun var tekin um það við fjárlagagerðina í desember, að það skyldi skera niður mest á þessu svæði til að sporna við þenslu eins og það var kallað. Ég held að menn í stjórnarliðinu verði að gera sér grein fyrir hvað þeir voru að samþykkja hér í fjárlagagerðinni.

Mig langar til að nota tíma minn til að minnast aðeins á slysahættuna af því að skera niður í vegaframkvæmdum sem ég hef verulegar áhyggjur af. Það kemur reyndar fram í þáltill. að viðurkennt er að slysatíðni er mest í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Þar er þjóðvegaumferð langmest og þá erum við að tala um svæðið sem afmarkast af vegamótum Krísuvíkurvegar og allt að Þingvallavegamótum í Mosfellsbæ. Á þessu svæði er þörfin fyrir úrbætur orðin mjög brýn og hún fer vaxandi og það er orðið mjög aðkallandi að farið verði þar í kostnaðarsamar framkvæmdir. Svo vitnað sé aftur í þingskjalið, með leyfi forseta, þá er talið að unnt sé að fækka þar umferðarslysum mest.

En mig langar til að benda á það, vegna umræðunnar um slysahættu af því að spara í vegaframkvæmdum, að það hefur verið reiknað út að kostnaður af slysum og árekstrum var talinn 8 milljarðar kr. á höfuðborgarsvæðinu, ef beitt er hefðbundnum aðferðum, en allt að 12 milljörðum ef notaðar eru þær viðmiðunarreglur sem tíðkast í nágrannalöndunum. Það hefur einnig verið reiknað út að mislæg gatnamót eru talin fækka slysum um helming og enn meir þeim alvarlegustu. Talningar óhappa á gatnamótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar fyrir og eftir byggingu brúarinnar þar staðfesta þessar tölur. En það má geta þess að um 70% allra óhappa í umferð í Reykjavík eiga sér stað á stofnbrautum.

Enn um slysin. Það hefur einnig verið reiknað út að vegna framkvæmdanna á Miklubrautinni, sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu minni, þá hefur í skýrslu um skipulag Miklubrautar verið metinn sá kostnaður sem gæti sparast við þá framkvæmd, þ.e. vegna slysavarna. Það er talið að árlegur sparnaður vegna fækkunar slysa og óhappa á Miklubraut, ef farið væri í þær framkvæmdir eða endurbætur sem lagðar hafa verið til þar, sé um 200 millj. kr. og 220 millj. kr. ef gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar yrðu gerð mislæg. Þarna er því um verulegar fjárhæðir að ræða sem má búast við að gætu sparast, fyrir utan þær hörmungar sem fólk lendir í sem verður fyrir þeim óhöppum og slysum sem umferðin leiðir af sér og það ástand sem verður í umferðinni þegar ekki er tekið á málum og gerðar úrbætur.