Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:37:22 (3586)

1997-02-17 18:37:22# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á sl. vori var samþykkt þingsályktun um flugmálaáætlun fyrir árin 1996--1999. Eins og fjárlög voru afgreidd er óhjákvæmilegt að breyta áherslum í flugmálaáætlun í samræmi við það sem þar stendur og eru breytingarnar þessar:

Áætlaðar tekjur fyrir árið 1997 hækka um 46 millj. kr. sem er byggt á áætluðum rauntekjum fyrir árið 1996 ásamt 3,5% hækkun milli ára. Umframtekjur ársins 1996 eru 42 millj. kr. og koma þær til ráðstöfunar í þessari áætlun.

Gert er ráð fyrir að 190 millj. kr. verði ráðstafað til rekstrar flugvalla í stað 100 millj. kr. í fyrri þingsályktun um flugmálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi sl. vor.

Þá er gert ráð fyrir 60 millj. kr. fjárveitingu til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Mismunur á milli aukinna tekna og breyttrar ráðstöfunar útgjalda frá fyrri þál. felur í sér lækkun útgjalda til Reykjavíkurflugvallar sem nemur 90 millj. kr. en jafnframt hækkun útgjalda til leiðréttinga og brýnna verkefna um 18 millj. kr.

Þessu til viðbótar vil ég aðeins segja þetta. Á undanförnum mánuðum, eða í rúmt ár getum við sagt, hafa farið fram viðræður milli Reykjavíkurborgar, samgrn. og Flugmálastjórnar um uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Þær umræður eru nú á lokastigi. Umhverfismat hefur farið fram og ég hygg að niðurstaða geti legið fyrir nú í þessum mánuði, eða a.m.k. í byrjun næsta mánaðar, og á þá ekkert að vera því til fyrirstöðu af þeim sökum að hægt sé að ráðast í að bjóða út endurbætur á Reykjavíkurflugvelli. Ég hafði gert mér vonir um að hægt yrði að ráðast í þessar endurbætur á þessu ári eins og ég hef margsinnis lýst yfir. Á hinn bóginn varð það að ráði vegna þeirra miklu framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á Reykjavíkursvæðinu vegna stóriðju og stóriðjuframkvæmda að þessi framkvæmd yrði látin bíða til næsta árs og þá yrði ráðist í þetta verk. Hugmyndin er auðvitað sú að vinna að áætlunargerðinni eða útboði og framkvæmdaröðun í samvinnu við Reykjavíkurborg. Ég þarf ekki að leggja á það mikla áherslu hér í þingsölum. Þingmenn eru þeim málum mjög kunnugir á hve miklu ríður að Reykjavíkurflugvöllur geti gegnt hlutverki sínu fyrir landsbyggðina. Hann er auðvitað sá flugvöllur hér innan lands sem mestu skiptir að sé í fullkomnu lagi en óviðunandi auðvitað ef til þess kæmi að nauðsynlegt yrði að taka hann úr notkun sem ég sé alls ekki að hætta sé á eins og málin liggja fyrir.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir 60 millj. kr. til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ástæðan er sú að umferð um Keflavíkurflugvöll hefur farið mjög vaxandi. Nauðsynlegt er því á þessu ári að bæta aðkomu farþega, fjölga afgreiðsluborðum og annað því um líkt og er þessum 60 millj. kr. varið til þess.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Málið verður lagt fyrir samgn. til athugunar og skoðunar og jafnframt gerð grein fyrir því hvernig viðræður standa milli Reykjavíkurborgar og flugmálayfirvalda, hvaða áætlanir eru uppi um framkvæmdahraða og endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar og síðast en ekki síst hvort til þess geti komið að við sjáum okkur fært í þessari atlögu að ráðast í byggingu nýrrar flugstöðvar, en síðast þegar ég vissi lá ekki endanlega fyrir hvar menn hugsuðu sér að hún stæði. Vonir manna stóðu á hinn bóginn til þess að hún gæti nýst bæði fyrir áætlunarbifreiðir, hópferðabifreiðir og svo farþega í innanlandsflugi.

Ég legg til að málinu verði vísað til síðari umræðu og samgn.