Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:05:58 (3594)

1997-02-17 19:05:58# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Niðurskurður á flugmálaáætlun og til viðhalds á Reykjavíkurflugvelli er eðlilega vegna þess að ekki eru til peningar. Þess vegna tel ég að heppilegra sé þegar á heildina er litið að nýta þá velli sem eru í því ástandi að geta tekið við hvaða flugi sem er. Ég held að engin ástæða sé til að reyna að leiða þá umræðu hjá sér að þessi flugvöllur, eins og ég sagði áðan, er fyrir skipulaginu í Reykjavík og það hefur margoft komið fram hjá borgarfulltrúum, borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans, Guðrúnu Ágústsdóttur. Hún hefur lýst því yfir í blaðagreinum, í viðtölum, í fjölmiðlum þannig að ég held að ekki sé hægt að segja annað þegar forseti borgarstjórnar lýsir yfir slíkri afdráttarlausri skoðun sinni, þá sé hún að tala í nafni fleiri en sjálfrar sín. Það er því ekki hægt að segja að það séu einhverjar bollaleggingar eða eitthvað snakk út í loftið. Þetta hlýtur að vera vilji meiri hluta Reykjavíkurlistans, alla vega á þeim tíma sem hún segir það. Ég skal ekki segja hvort hún hafi skipt um skoðun.

Það er alveg ljóst að þó hv. þm. hafi ekki sagt að ekki mætti neitt flug eiga sér stað, þá er samt greinilegt að ef hættuástand er undir ákveðnum kringumstæðum sem geti þýtt að þarna yrðu slys, þá mundi ég segja að í því fælist sú yfirlýsing að um þennan völl gæti ekki orðið neitt flug undir ákveðnum kringumstæðum. Flugvöllurinn er sem sagt ekki nýtanlegur nema veður og aðrar aðstæður sem hafa mikil áhrif á þennan völl séu heppilegar. Það er ekki hægt að segja það um völlinn á Keflavíkurflugvelli að hann geti ekki verið fær undir hvaða kringumstæðum sem er.