Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:10:00 (3597)

1997-02-17 19:10:00# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki að tíunda hér í ræðustól að ég er auðvitað fullkomlega ósammála hv. þm. um að það mundi ganga upp að flytja innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar. Við höfum oft skipst á orðum út af þeirri skoðun hv. þm. Ég þarf ekki að rökstyðja mína skoðun í þessu. Hún er augljós öllum sem þurfa á slíkum samgöngum að halda, þurfa að skjótast til Akureyrar, skjótast til Ísafjarðar, skjótast til Egilsstaða eða þaðan hingað til höfuðborgarsvæðisins. Það er auðvitað algerlega út í hött að byrja á því að aka til Keflavíkur, algerlega út í hött og gengur ekki, enda yrði auðvitað sjónarsviptir af því í Reykjavík ef innanlandsflugið félli niður, dreifðist á nágrannabyggðarlög því að ekki mundu menn una því að þurfa að fara alla leið suður í Keflavík til að lenda nálægt Reykjavík, fá bæði dýrara flug og lengri tíma en ella mundi, t.d. ef menn mundu lenda á flugvellinum á Selfossi svo að dæmi sé tekið eða bara fara upp í Mosfellssveit.

Um hitt vil ég svara nokkrum orðum sem hv. þm. hafði á orði út af því að svo kynni að fara að Grænlandsfluginu yrði öllu beint til Reykjavíkur. Ég held að engar slíkar áætlanir séu uppi. Ég hef ekki heyrt um það. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir samkeppnisstöðu oss Íslendinga gagnvart Grænlandsflugi og einnig í sambandi við samvinnu íslenskra flugfélaga og Grænlandsflugs að hægt sé að tengja Grænlandsflugið beint við Kaupmannahafnarflugvöll og Keflavíkurflugvöll og koma þannig til móts við hagsmuni Grænlendinga. Ég held að það sjónarmið hljóti að vera ráðandi. En svona til upplýsingar, þá er sumt af Grænlandsfluginu frá Akureyri líka, þ.e. á austurströndina, þannig að það má nú ekki alveg gleyma höfuðborg Norðurlands í þessari umræðu ef menn vilja á annað borð gera málefninu skil.