Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:16:46 (3600)

1997-02-17 19:16:46# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:16]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki séð að ég hafi neina ástæðu til að draga neitt til baka af því sem ég sagði um yfirlýsingar forseta borgarstjórnar í Reykjavík. Hún hefur lýst því yfir að hennar skoðun sé sú að það eigi að leggja niður Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd og leggja þetta svæði undir byggingar, undir skipulag til annarrar starfsemi en flugstarfsemi. Ég hef ekki fullyrt að hún hafi ætlast til þess að flugið flyttist til Keflavíkur, ég hef aldrei sagt það. En þessi yfirlýsing hennar liggur fyrir og við skulum bara fara í gegnum þær fréttir sem hafa verið af þessu máli og greinar sem skrifaðar hafa verið og þá getum við komist að því sanna.

Varðandi það að kostnaður aukist ef flutningur verður á fluginu til Keflavíkurflugvallar. Ég viðurkenni að það er að sjálfsögðu mun þægilegra fyrir þingmenn að skutlast héðan úr þinghúsinu út í Vatnsmýrina til þess að taka flug til Akureyrar eða Ísafjarðar, en fyrir þá sem eru uppi í Breiðholti eða eiga heima í Hafnarfirði skiptir þetta ekki nokkru máli. Það er líka fólk sem þarf að leggja út í kostnað.

Sá kostnaður sem við erum að leggja í núna samkvæmt hugmyndum um endurnýjun á Reykjavíkurflugvelli er upp á 1,3 milljarða. Miðað við það sem við heyrðum í fréttunum nýverið að leggja ætti niður norðvestur/suðaustur brautina, eða taka alla vega hluta af henni undir flugstöð, sýnir okkur að það er skref fyrir skref verið að ganga á þetta svæði. Og það getur ekki endað nema á einn veg, þ.e. að þessi flugvöllur verður lagður niður með tímanum. Þetta er allt spurning um tíma. Þess vegna hef ég sagt og stend á því að það væri miklu sniðugra og eðlilegra að taka upp þá umræðu að flytja þetta allt suður eftir þar sem aðstæður eru til staðar og menn geta farið strax í að undirbúa þær.