Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:30:34 (3604)

1997-02-17 19:30:34# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:30]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur brugðið svo við, ekki aðeins í umræðum um Reykjavíkurflugvöll heldur einnig áður um vegamál, að hv. stjórnarandstæðingar grípa til þess í hverju málinu á fætur öðru að brigsla mér um það að ég vilji sitja á framkvæmdum og með því sé ég að stefna í hættu lífi og limum Íslendinga. Var svo að skilja á hinum nýráðna ritstjóra Alþýðublaðsins áðan að mér væri það mest í mun að stefna í tvísýnu limum og lífi flugfarþega innan lands. Þetta er auðvitað málflutningur sem nær engri átt og tekur engu tali.

Ég vil líka að það komi fram af þessu tilefni að sú var tíðin að við sátum saman í ríkisstjórn, ég og þessi hv. þm. og ég minnist þess ekki frá þeim tíma að formaður Alþfl. hafi verið neitt sérstaklega áhugasamur um það að fjármunum samkvæmt flugmálaáætlun yrði öllum varið til Reykjavíkurflugvallar heldur hafði hann ár eftir ár uppi háar kröfur um að sem mestir peningar rynnu til Keflavíkurflugvallar, ef ég man rétt. Það er eins og það er þegar hinn nýmóðins alþýðuflokksmaður er að fetta fingur út í það.

Staðreyndin í málinu er sú að við hittumst á öndverðu síðasta ári, ég og borgarstjóri, og við komum okkur saman um að reyna að flýta niðurstöðu um umhverfismat á Reykjavíkurflugvelli og reyna að hraða svo undirbúningi að hægt yrði að bjóða út Reykjavíkurflugvöll á næsta vori og var við það miðað, svo öllu sé til skila haldið. Ég hafði lagt á það áherslu af minni hálfu að við þetta yrði staðið og við það getum við staðið vegna undirbúningsins. En á hinn bóginn varð það niðurstaða að til þess að vinna á móti þeirri þenslu sem fyrirsjáanleg er, þá yrði því frestað um eitt ár að ráðast í Reykjavíkurflugvöll, enda lítum við svo á að við séum ekki með því að stefna lífi flugfarþega í hættu.