Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:42:17 (3611)

1997-02-17 19:42:17# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um góðan hug hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar í þessu máli. Hann hefur talað mjög skýrt en hann býr eigi að síður við það heimilisböl að vera í sama þingflokki og hv. þm. Kristján Pálsson sem er honum algerlega andstæðrar skoðunar og að auki með hæstv. samgrh. í eftirdragi. En vilji hans í þessari umræðu er ekki meira en loðmullulega volgur, finnst mér. Hann hefur ekki talað skýrt. Hæstv. samgrh. á eftir að lýsa því yfir í umræðunni að fortakslaust verði farið í þessar framkvæmdir á næsta ári. Að öðru leyti, herra forseti, mundi það mjög greiða fyrir umræðunni ef sjálfstæðismenn reyndu nú að setja niður þennan ágreining sín á milli í sínum þingflokki en þurfa ekki að vera að opinbera hann í þingsal og tefja umræðuna fyrir vikið.