Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:43:15 (3612)

1997-02-17 19:43:15# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Stuðningsmenn R-listans í Reykjavík fara mikinn hérna og þeim liggur mikið á hjarta við að reyna að koma því á Sjálfstfl. að hann hafi einhverja sérstaka stefnu um að flytja Reykjavíkurflugvöll í burtu. Ég held að það sé í rauninni öllum ljóst sem hafa fylgst með fréttum og hafa fylgst með því hvað hv. borgarfulltrúar, eins og hv. borgarfulltrúi Guðrún Ágústsdóttir hefur sagt, þá er það hennar vilji að flytja Reykjavíkurflugvöll frá miðborginni og ég er hér með frétt úr Morgunblaðinu frá 24. október 1995 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Guðrún sagðist ekki leyna því að sjálf vildi hún flugvöllinn út úr borginni enda væri um stórt byggingarsvæði að ræða og byggð á flugvallarsvæðinu myndi óneitanlega styðja og styrkja miðborgina.``

Þetta eru hennar óbreyttu orð, herra forseti, og ég held að þar með sé búið að sýna fram á það að þessar yfirlýsingar sem ég hef farið með eru réttar og ég hef ekki farið með staðlausa stafi, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan. Ég held að líka sé ljóst að það er stefna R-listans að leggja þennan flugvöll niður og flytja hann eitthvað annað en ekki stefna Sjálfstfl. og það er ekki með nokkru móti hægt fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að reyna að klína því yfir á einhverja aðra sem R-listinn er að bauka með í borginni.

En ég fagna því í rauninni sjálfur persónulega, herra forseti, að þessi stefna skuli vera uppi hjá R-listanum í Reykjavík því að það er að sjálfsögðu þjóðhagslega miklu hagkvæmara og eðlilegra að flytja þessa starfsemi þar sem flugvöllur er í fullkomnu ástandi og mun verða það áfram og geta þjónað hvaða flugi sem er.