Skráning skipa

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 19:50:21 (3616)

1997-02-17 19:50:21# 121. lþ. 71.14 fundur 217. mál: #A skráning skipa# (eignarhlutur útlendinga) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[19:50]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með lögum nr. 46 22. maí 1996, um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, var rýmkuð heimild útlendinga til þátttöku í íslenskum atvinnurekstri með óbeinni hlutdeild þar á meðal með þátttöku í hlutafélögum sem aftur voru eigendur lögaðila er útgerð stunda. Augljóst er að löggjafinn vildi rýmka heimildir erlendra aðila til fjárfestinga hér á landi og þar með viðurkenna rétt þeirra til að leggja fé til og eiga hlut í hlutafélögum sem aftur átti hlut í öðrum félögum, lögaðilum sem mega stunda fiskveiðar og eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða. Til þess að framangreint ákvæði geti náð tilgangi sínum er eðlilegt að breyta einnig ákvæðum laga um skráningu fiskiskipa, nr. 115 31. desember 1985, eins og hér er lagt til. Þar með gilda sömu reglur um eignarhald útlendinga í fiskveiðum og fiskvinnslu og fiskiskipum.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.