Bókasafnssjóður höfunda

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 13:38:36 (3618)

1997-02-18 13:38:36# 121. lþ. 72.7 fundur 330. mál: #A Bókasafnssjóður höfunda# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[13:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi dagsettu 10. júní 1996 skipaði ég nefnd til að kanna forsendur fyrir breytingum á gildandi lagaákvæðum um þóknun til höfunda vegna afnota bóka í bókasöfnum, sbr. 11. gr. gildandi laga um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976.

Í nefndina voru skipuð Karitas H. Gunnarsdóttir frá menntamálaráðuneyti, formaður, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, samkvæmt tilnefningu Rithöfundasambands Íslands, Magnús Guðmundsson, tilnefndur af Hagþenki --- félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, og Knútur Bruun, tilnefndur af Myndstefi --- Myndhöfundasjóði Íslands.

Nefndin tók þá þegar til starfa og hélt tíu fundi og skilaði af sér tillögum sínum um síðustu áramót.

Nefndin hafði einkum til hliðsjónar dönsk lög um ,,Biblioteksafgift``, nr. 354/1991, svo og reglugerð frá Danmörku um sama mál. Einnig voru skoðaðar úthlutunarreglur frá Svíþjóð og Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Ástralíu en markmið nefndarinnar var að finna leið til að koma á skilvirku kerfi sem skilaði starfandi höfundum á Íslandi greiðslum fyrir afnot verka þeirra á bókasöfnum og stuðlaði að bókmenntasköpun í landinu.

Nefndin taldi brýnt að tekið yrði tillit til afnota bóka í almenningsbókasöfnum, skólabókasöfnum, Landsbókasafni Íslands -- Háskólasafni og bókasöfnum í stofnunum sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum.

Það er afrakstur þessa nefndarstarfs sem liggur hér fyrir í frv. um Bókasafnssjóð höfunda. Veigamestu breytingar og nýmæli sem frv. gerir ráð fyrir ef borið er saman við núgildandi lagaákvæði eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að þýðendur og mynd- og tónhöfundar öðlist rétt til úthlutunar. Þannig fái þýðendur 1/3 hlut miðað við að frumhöfundar og myndhöfundar eignist hlutdeild í verkum eftir því sem við á. Aftur á móti er réttur til úthlutunar eftir andlát höfundar skilgreindur þrengra en nú, bæði hvað varðar gildistíma svo og hvaða aðilar skuli njóta þeirra réttinda. Er það í samræmi við það sjónarmið að Bókasafnssjóður sé fyrst og fremst til þess ætlaður að styrkja starfandi höfunda á hverjum tíma og efla þannig nýsköpun bókmennta í landinu.

Í öðru lagi er lagt til að lögin taki til afnota í bóka- og almenningsbókasöfnum, skólabókasöfnum, Landsbókasafni Íslands -- Háskólabókasafni og bókasöfnum í stofnunum sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum. Greiðslur verði miðaðar við útlán bóka og byggist á skráningu margra safna. Núgildandi lagaákvæði taka aðeins til almenningsbókasafna. Ákvörðun þóknunar miðist í framkvæmd við fjölda eintaka á Borgarbókasafni en er ekki í samræmi við notkun verkanna eins og nú er.

Í þriðja lagi verði fellt niður ákvæði um fjárhæð framlagsins sem veitt er til að inna greiðslurnar af hendi, en gert ráð fyrir því að það verði ákveðið í fjárlögum ár hvert og renni í Bókasafnssjóð höfunda sem leysi Rithöfundasjóð Íslands af hólmi.

Ísland var á sínum tíma meðal þeirra þjóða sem fyrstar tóku upp greiðslur til höfunda fyrir afnot af bókum þeirra í bókasöfnum. Hins vegar er nú svo komið að framlagið hér er hið lægsta á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Samkvæmt núgildandi lögum er fé í þessu skyni veitt á fjárlögum um hendur Rithöfundasjóðs Íslands. Á fjárlögum 1997 er gert ráð fyrir að Rithöfundasjóður fái 12,3 millj. kr. til ráðstöfunar. Verði frv. að lögum er gert ráð fyrir tæplega 5 millj. kr. hækkun til sjóðsins þannig að heildarframlagið nemi 17 millj. kr. Heildarfjöldi íslenskra höfunda og rétthafa sem fá greitt fyrir bækur í söfnum árið 1996 er 862, en þar af eru erfingjar látinna höfunda 246 talsins. Þýðendur sem og mynd- og tónhöfundar fá engar greiðslur miðað við núgildandi lög. Lágmarksgreiðsla á árinu 1996 var 1.170 kr. miðað við 30 eintök á Borgarbókasafni en hæsta greiðsla 81.159 kr. miðað við 2.081 eintak.

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara frekari orðum um efni þessa frv., það skýrir sig sjálft og liggur skýrt fyrir í frumvarpstextanum sem ekki er langur. En ég vek athygli á því að fái þetta frv. góðar viðtökur hér í þingi og verði samþykkt, þá þarf að huga að málinu einnig við afgreiðslu á frv. um almenningsbókasöfn sem liggur fyrir og er til meðferðar í menntmn. en þar er endurflutt óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum um greiðslur fyrir afnot af bókum í bókasöfnum en sú grein mundi þá falla úr því frv. og þessi lagabálkur, þessi nýju lög koma í staðinn fyrir þá grein sem er í frv. um almenningsbókasöfn. Þess vegna beini ég því til hv. menntmn. að hún taki þessi mál fyrir samhliða þannig að það verði samræmi á milli afgreiðslu nefndarinnar í þessum málum. Enn fremur leyfi ég mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til nefndarinnar.