Bókasafnssjóður höfunda

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 13:57:02 (3621)

1997-02-18 13:57:02# 121. lþ. 72.7 fundur 330. mál: #A Bókasafnssjóður höfunda# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[13:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek fyllilega undir það með hæstv. menntmrh. að það mál sem við erum að ræða er mjög gott og markar framfaraspor að mörgu leyti. Ég varpaði fram tveimur spurningum til hæstv. menntmrh. sem ég óskaði eftir svörum við. Mér finnst að í ræðu sinni hafi hann skýrt mjög ítarlega þau viðhorf sem að baki liggja og ég fagna svörum hans. Í fyrsta lagi spurði ég hann um það hvort ekki væri nauðsynlegt að tryggja aukið fjármagn til sjóðsins í framtíðinni vegna þess að viðfang hans er breikkað. Hæstv. ráðherra svaraði efnislega á þá leið að hann hafi hugsað til þess með því að draga úr framlögum á öðrum vettvangi, þ.e. til erfingja, þeirra sem hafa erft höfundarrétt. Ég hef í sjálfu sér enga skoðun á því en það er rétt hjá honum að þar er hann um leið að skapa aukið svigrúm handa þeim sem eru lífs og hafa rétt á einhvers konar framlögum. Hann bendir líka á það að hann hafi að þessu sinni talið nægilegt að hækka styrkinn um 5 millj. kr. Ég tel að í þeim orðum hans felist yfirlýsing um að málið sé enn á reynslustigi en þegar reynslan er komin á það mun hann beita sér fyrir hækkunum ef það er talið nauðsynlegt. Það finnst mér gott.

Hinu fagna ég þó miklu fremur, því sem hann sagði varðandi seinna atriðið. Ég átti erfitt með að sætta mig við þá yfirlýsingu sem kemur fram í athugasemdum um 5. gr. um að það sé eðlilegt að áherslan verði lögð á styrki til höfunda fagurbókmennta. Hæstv. ráðherra segir að hann hafi ekki talið rétt að hrófla við þeirri niðurstöðu sem varð í nefndinni sem samdi frv. Nú er það auðvitað á ábyrgð ráðherra sem leggur fram mál hvaða skoðun kemur fram í frv. eins og þessu. Ég hefði talið miklu æskilegra að hæstv. ráðherra hefði látið sína skoðun koma fram en ekki bara þessarar nefndar. En það er ekki aðalatriði málsins. Höfuðatriði málsins er það að hæstv. ráðherra hefur greint frá því að hann hafi áður sagt frá ákveðinni skoðun í þessu máli, þ.e. að það beri að efla hlut þeirra sem eru höfundar fræðirita. Hann hefur ítrekað þá skoðun sína og hann hefur lýst því yfir að sú skoðun sem kemur fram í athugasemdum um 5. gr. sé í rauninni ekki hans og ég get fyllilega sætt mig við þessa málavexti. En ég beini því þá vinsamlegast til hv. menntmn. að hún hafi í huga að það viðhorf sem þarna kemur fram er viðhorf nefndarinnar og hæstv. ráðherra hefur sagt að þetta sé ekki endilega viðhorf hans.