Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 15:13:27 (3631)

1997-02-18 15:13:27# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[15:13]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekki segja hvort það hefði verið eðlilegt endilega að hafa hér inni þá fjárhæð sem reiknað er með að nýr barnaspítali muni kosta. Það má svo sem vel vera, ég þekki ekki nákvæmlega hvað er eðlilegt að hafa inni í svona kostnaðarmati yfirleitt. Hins vegar get ég upplýst að miðað við þær tölur sem við höfum verið að fjalla um til byggingar nýs barnaspítala þá er áætlað að hann kosti ríkið alla vega 800 millj. sem er auðvitað mjög há upphæð. Það verður að sjálfsögðu væntanlega fjármagnað á nokkrum árum.

Málin standa þannig að það þarf að skoða þau gögn sem hafa verið unnin hjá síðustu ríkisstjórn, það þarf að endurskoða þau og uppreikna. Síðan þarf að taka nákvæmar ákvarðanir um hvernig á að standa að hönnun og útboði. Þetta er afar stórt verk. Þessi upphæð, 800 millj. kr., er ekki neitt óyfirstíganleg af því að á hverju ári hefur runnið talsverð upphæð í uppbyggingu á Landspítalalóðinni. En eins og allir vita er afar brýnt að við sjáum hér nýjan barnaspítala fyrr en seinna.