Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 15:42:53 (3637)

1997-02-18 15:42:53# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GuðrS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[15:42]

Guðrún Sigurjónsdóttir:

Herra forseti. Mig langaði aðeins að blanda mér í umræðuna um þetta frv. Mér finnst frv. í heild mjög jákvætt en samt virkar margt í því sem almennar leiðbeiningar frekar en lagasetning af því að það eru ekki nein viðurlög tilgreind í frv. Það er líka erfitt að sanna brot sem heilbrigðisstarfsmenn mundu hugsanlega fremja á sjúklingum. Dæmi um það er í 3. gr. frv. þar sem sagt er, með leyfi forseta: ,,Heilbrigðisstarfsmaður skal leitast við að koma á traustu sambandi milli sín og sjúklings.`` Þetta er allt mjög gott og auðvitað á heilbrigðisstarfsmaður að gera þetta, en þetta er hins vegar almennt og mjög erfitt að sanna nokkuð í þessu máli. Hins vegar held ég að þetta sé gott og þetta er aðhald fyrir heilbrigðisstéttir að meðhöndla sína skjólstæðinga af fullri virðingu og vandvirkni þannig að þetta er til góðs í heildina.

Það eru bara örfá atriði sem mig langaði til að nefna. Fyrst í sambandi við rétt sjúklinga til að fá upplýsingar um heilbrigðisástand sitt, meðferð og horfur. Það er mjög jákvætt að þetta sé inni vegna þess að þarna er mjög oft pottur brotinn. Eitt sem mig langar til að koma með í þessu samhengi er að ég held að það væri til bóta að skilgreina að þessar upplýsingar skuli vera skriflegar, svo oft sem hægt er, vegna þess að það er nú bara svo að þegar fólk er inni á sjúkrastofnunum, er veikt, er að fást við mjög erfiða hluti að þá er oft mjög erfitt að taka við upplýsingum. Þess vegna held ég að eftir því sem hægt er, það er auðvitað ekki alltaf hægt að hafa upplýsingarnar skriflegar vegna þess að hlutirnir gerast hratt, en þegar það er hægt þá held ég að það ætti að vera. Það hefur aukist að upplýsingar um aðgerðir og meðferð séu skriflegar. En ég held að væri rétt að hnykkja á þessu til að tryggja að upplýsingar berist sjúklingnum sem best og verði honum nýtilegar.

Þá ætla ég að koma að 22. gr. þar sem segir að við útskrift af heilbrigðisstofnun skuli sjúklingur fá, eftir því sem þörf krefur, leiðbeiningar um þýðingarmikil atriði er varða eftirmeðferð, svo sem lyfjagjöf, mataræði, þjálfun og hreyfingu. Ef þess er óskað skulu leiðbeiningarnar gefnar skriflega. Í þessu tilviki held ég að leiðbeiningar ættu alltaf að vera skriflegar af sömu ástæðu og ég talaði um áðan að það hefur sýnt sig í rannsóknum hvað eftir annað að upplýsingar, sem gefnar eru um þessa hluti á meðan á dvöl sjúklings á heilbrigðisstofnun stendur, skila sér ekki og síðan þegar sjúklingurinn á að standa skil á þessum upplýsingum einhverju síðar, þá hafa þeir hreinlega aldrei heyrt þetta. Þetta hefur ekkert með það að gera að sjúklingar séu svona vitlausir heldur eru þeir bara undir miklu álagi meðan á dvöl stendur. Það er verið að fjalla um hluti sem þeim eru oft mjög framandi. Það er svo margt sem þeir þurfa að takast á við og margt sem þeir þurfa að tileinka sér á meðan á dvöl stendur að ég tel að það sé grundvallaratriði að allar leiðbeiningar, sem óskað er eftir að sjúklingur fylgi eftir útskrift, séu skriflegar. Þetta byggi ég á eigin reynslu líka, þetta eru bæði rannsóknir og eigin reynsla.

Það eru örfá atriði enn sem mig langar til að gera athugasemdir við. Það er 21. gr. frv. sem kveður á um ábyrgð sjúklingsins á eigin heilsu. Þar segir að hann skuli fylgja fyrirmælum heilbrigðisstarfsmanna um atriði sem snerta meðferð hans. Ég er í sjálfu sér alveg sammála innihaldi þessarar greinar, þ.e. að sjúklingurinn skuli sýna ábyrgð, hugsa um heilsu sína og fara eftir leiðbeiningum, sem hann hefur þá vonandi fengið skriflega. Hins vegar skil ég ekki alveg af hverju þetta er í lögum. Hvað á að gera ef sjúklingurinn fer ekkert eftir þessu? Ef það er nú sannað að sjúklingurinn hafi ekki reynt eftir megni að fylgja fyrirmælum læknis, hvað þá? Á að vísa honum úr meðferð? Á heilbrigðisstarfsmaður að segja: Nei, væni minn, þú fórst ekki eftir því sem ég sagði, ég hef ekkert meira við þig að tala? Þetta er almenn ósk um það að fólk geri einhverja tiltekna hluti og sú ósk á að vera uppi en ég get ekki séð að hún eigi í sjálfu sér að vera í lögum vegna þess að við förum ekki að refsa fólki, það hefur verið stefnan, fyrir það að fara ekki eftir leiðbeiningum. Þó að fólk hafi með líferni sínu áunnið sér sjúkdóma þá neitum við því ekki um meðferð þannig að ég sé ekki að þetta eigi að vera í lögum. Alls ekki.

Aðeins eitt í sambandi við upplýsingar sem sjúklingar eiga aðgang að úr sjúkraskrám. Mér finnst það mjög gott og ég held að það virki sem aðhald á heilbrigðisstarfsmenn að vanda nú vel til sjúkraskrárgerðar en hins vegar bara í framhjáhlaupi, þó það komi ekki endilega þessum lögum við, þá þarf betri lög um það hvaða upplýsingar skuli varðveittar í sjúkraskrá. Það eru til lög um hvað læknar eigi að setja í sjúkraskrá en það vantar hins vegar nánari lög um það hvað aðrar heilbrigðisstéttir skuli skrá og hvernig það skuli varðveitt.

Og síðan rétt aðeins um 24. gr. þar sem segir að dauðvona sjúklingur eigi rétt á að deyja með reisn. Auðvitað er ég alveg sammála því í sjálfu sér en hins vegar á sjúklingur alltaf að geta haldið fullri reisn eftir því sem ástand hans gerir mögulegt, hvort sem hann er dauðvona, fatlaður eða mjög veikur eða af einhverjum öðrum ástæðum ófær um að gæta réttar síns sjálfur. Og auðvitað eiga heilbrigðisstarfsmenn og allir að taka tillit til þessa á öllum stigum. Ég veit ekki hvort það er endilega þörf á að taka það sérstaklega fram ef sjúklingur er dauðvona en það á alla vega að gilda um alla sjúklinga, alltaf. Þeir eiga alltaf að fá haldið fullri reisn og ég vildi gjarnan að það kæmi fram í þessum lögum.

Aðeins eitt um 17. gr. líka. Þar segir að heilbrigðisstarfsmaður skuli gæta þess að framkvæma nauðsynlega meðferð þannig að utanaðkomandi aðilar sjái ekki til. Þá væri náttúrlega mjög gott að sjúklingar lægju ekki á göngum þar sem er fullt af fólki á ferð. En því miður er það svo þegar öll herbergi eru upptekin, skoðunarherbergi og hvaðeina eru upptekin á deildum, að þá liggur fólk á göngunum og það er hvergi í neitt skjól að fara jafnvel þó að þurfi að hlusta sjúkling, taka upp skyrtu, fara úr skyrtu, þannig að það sjáist að það sé hálfnakið að ofan. Það er okkur náttúrlega til skammar að fólk skuli þurfa að sitja og vera hálfnakið á göngum sjúkrastofnana. Einhvern veginn þarf að bæta úr þessu og það gæti kostað eitthvað.